Leshraði aðeins einn þáttur lesfærni

Ljósmynd/Colourbox

Líkt og fjallað var um í dag vakti færsla Ilmar Kristjánsdóttur leikkonu á samfélagsmiðlum mikla athygli þar sem hún segir áherslu á leshraða ekki vera að skila árangri, enda sýni slælegur árangur í lesskilningi að meiri áhersla ætti að vera lögð á þann þátt.

Ekki náðist í Ásmund Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra vegna þessa, en frá ráðuneytinu bárust þau svör að leshraði væri aðeins einn hluti aflestarfærni og mældur sem slíkur.

„Leshraði veitir vísbendingar um vanda í lestri sem þyrfti að grípa inn í, en er að sjálfsögðu ekki eina færnin sem skiptir máli þegar kemur að lestri. Hægur leshraði getur þannig bent til þess að það séu erfiðleikar við umskráningu (að breyta bókstöfum í málhljóð, tengja þau saman og finna merkingu) sem hefur áhrif á lesskilning. Þetta tvennt er því samtvinnað.“

Ný tækni við námsmat í þróun

Sóley Ragnarsdóttir aðstoðarkona ráðherra segir að þegar hafi verið kynnt að það verði tekin upp ný tækni við námsmat, svokallaður Matsferill. Hugmyndin sé að ákveðnir prófþættir innan skólanna verði mældir með reglubundnari hætti svo hægt sé að grípa inn fyrr en ella ef nemendur eiga í erfiðleikum með einhvern hluta námsins. Hún segir að lestur sé eitt fyrsta fagið sem matsferilinn muni ná til en hann sé þegar í þróun hjá ráðuneytinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert