Tímabundinni lokun fyrir ferðir að Kötlujökli vegna aukinnar jarðskjálftavirkni í Mýrdalsjökli hefur verið aflétt.
Þetta ákvað lögreglan á Suðurlandi eftir fund með náttúruvársérfræðingum Veðurstofu Íslands.
Dregið hefur úr skjálftavirkni á ný og gefa mælingar á gasmengun í dag ekki tilefni til áframhaldandi lokunar.
Ef aðstæður munu breytast verður brugðist við á nýjan leik með lokun, að því er segir í tilkynningu.
„Þá er því beint til ferðaþjónustuaðila að skynsamlegt er að útbúa leiðsögumenn með gasmælum og að hópar yfirgefi svæðið strax ef breytingar eru að mælast,“ segir í tilkynningunni.