Íslenska ríkið var sýknað af bótakröfu konu sem taldi sig hafa orðið fyrir ólögmætum þvingunarráðstöfunum af hálfu lögreglu í kjölfar gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Sakaði hún lögreglumenn um að hafa neytt sig til þess að afklæðast við blóðtöku og beitt hana tilefnislausri hörku með líkamlegu valdi. Þótti frásögn hennar ekki í samræmi við myndbandsupptökur úr búkmyndavél lögreglumanna.
Konan sem um ræðir var handtekin vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Niðurstöður blóðsýnis leiddu í ljós að hún hafði tekið slævandi lyf, en það þótti ekki duga til sakfellingar og var hún því sýknuð.
Krafðist hún í kjölfarið bóta vegna óþarfa þvingunarráðstafana, handtöku, líkamsrannsóknar, leitar í bifreið og haldlagningu. Til vara krafðist hún svo skaðabóta vegna óhóflegrar valdbeitingar lögreglumanna og ólögmætrar meingerðar þeirra gegn persónu hennar.
Var ríkið sýknað af öllum kröfum konunnar.
Fyrr um morguninn hafði konunni sinnast á við afgreiðslustúlku í verslun. Á leið út tók hún blómvönd, sem var til sölu í versluninni, og setti í ruslafötu. Starfsmaður verslunarinnar brást við með því að ýta á árásarhnapp og kalla til lögreglu.
Konan ók bifreið sinni af bílstæði verslunarinnar og á vegarkant. Lögregla grunaði hana um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Var konan handtekin og færð á lögreglustöðina þar sem henni var gert að skila þvagprufu, auk þess sem farið var fram á blóðsýni úr henni.
Í niðurstöðu héraðsdóms er vísað til myndefnis úr búkmyndavélum lögreglumanna, og talið að lögreglu hafi verið rétt að handtaka konuna í ljósi ástands hennar og hegðunar.
Á lögreglustöðinni gekk illa að fá konuna til þess að gangast undir blóðrannsókn.
Í stefnu lýsti konan því að við blóðtökuna hafi lögreglumenn tilefnislaust stokkið á hana, snúið henni með haldi niður í gólfið, haldið henni niðri, lagst ofan á hana og sett hné harkalega á bakið á henni. Þá hafi þeir einnig sett hendur á háls hennar og þrýst svo mikið að öndunarvegi hennar að hún hafi misst meðvitund. Sömuleiðis hafi þeir stigið ofan á tær hennar, ýtt á eyru hennar, haldið vast í fætur hennar og með þunga þrýst að afturenda hennar.
Voru þessar lýsingar ekki taldar samrýmanlegar gögnum málsins, en upptökur úr búkmyndavélum sýndu talsverðan aðdraganda valdbeitingarinnar. Þá var ekki fallist á að konan hafi misst meðvitund.
Konan hélt því jafnframt fram að hún hafi verið knúin til að fara úr kjólnum og sitja berbrjósta, og á tímabili nakin, fyrir framan fjölda lögreglumanna, sem flestir hafi verið karlkyns.
Lögregla mótmælti þessari frásögn og sagði konuna hafa verið í víðum kjól, en ermar hafi verið þröngar og hjúkrunarfræðingi gengið illa að draga þær upp. Bent var á að konan gæti komið hendinni upp um hálsmál kjólsins, en þá hafi hún rifið sig úr kjólnum fyrirvaralaust og því verið hálfnakin fyrir framan fjóra lögreglumenn, tvær konur, tvo karlmenn og hjúkrunarfræðing.
Þá þegar hafi annar karlkyns lögreglumaðurinn vikið úr herberginu og hinn snúið andliti sínu frá stefnanda og farið út úr herberginu litlu síðar meðan reynt hafi verið að taka blóð úr konunni.
Frásögn lögreglu þótti eiga sér stoð í myndbandsupptökum búkmyndavélanna.