Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að staða félagsins í Alþýðusambandinu (ASÍ) sé óbreytt í bili. Ekki sé tímabært að hún breytist þar sem þingi ASÍ hafi verið frestað, en rétt sé að ræða málefni ASÍ á vettvangi félagsins eftir að kjarasamningar hafa verið gerðir.
Þetta kom fram í orðsendingu formannsins til trúnaðarráðs VR, en boðað er til stjórnarfundar VR í dag og á morgun er boðaður formlegur fundur með Samtökum atvinnulífsins (SA).
Ragnar Þór segir að öll áhersla félagsins nú sé á kjarasamninga og ljóst að sú vinna fari fram á vettvangi félagsins, svo ASÍ er þar ekki ætlað neitt hlutverk. Í því samhengi áréttaði Ragnar Þór að „engin bandalög hafa verið gerð á þessu stigi“ og vísaði þar að líkindum til málskrafs um að VR, Efling og Starfsgreinasambandið gerðu með sér bandalag í komandi kjaralotu. Ekkert er þó greinilega útilokað í þeim efnum.
Umfjöllunina í heild sinni má nálgast í Morgunblaðinu í dag.