„Þetta jafnréttisland sem verið er að gefa Ísland út fyrir að vera í dag á sér ekkert mjög djúpar rætur,“ segir Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í kvenna- og kynjasögu við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.
Erla er einn frummælenda á málþinginu Ingibjörg, stjórnmálin og kvennahreyfingin sem haldið verður á vegum Sagnfræðingafélags Íslands í Neskirkju mánudaginn 24. október klukkan 20. Tilefnið er að um þessar mundir eru eitt hundrað ár liðin síðan Ingibjörg H. Bjarnason, skólastýra Kvennaskólans í Reykjavík, var kjörin á þing fyrst kvenna í landskjörskosningum árið 1922.
„Það sem mig langar að tala um er þetta alþjóðlega samhengi sem Ingibjörg og íslensk kvennahreyfing með sínar kröfur um jafnan rétt kynjanna lifðu og hrærðust í,“ heldur Erla áfram en fyrirlestur hennar ber titilinn Framagjarnar konur og heiðvirðar húsmæður í þverþjóðlegu samhengi.
„Þetta snýst um að íslensk kvennahreyfing hafði frá því upp úr aldamótum verið í góðu sambandi við alþjóðakvennahreyfinguna. Íslenskar konur fylgdust með og tóku þátt og þarna varð til mikil og góð samvinna,“ segir Erla. Millistríðsárin hafi þó verið sá tími sem málþingið snýst fyrst og fremst um. Þá séu áherslumálin að breytast og breið fylking kvenna, sem unnið hafi að bættum hag í víðum skilningi, hafi komið fram á sjónarsviðið.
„Þarna er verið að krefjast bættra kjara giftra kvenna, betra aðgengis að opinberum störfum, ríkisborgararéttur kvenna er stórmál á millistríðsárunum og eftir seinna stríð. Ríkisborgararéttur kvenna fylgdi ríkisborgararétti karla þannig að þær eru í þessari miklu samvinnu og undir miklum áhrifum þess sem er að gerast erlendis,“ segir prófessorinn.
Á millistríðsárunum komi enn fremur bakslag í kvennabaráttuna, á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar og eftir hana séu konur að fá kosningarétt til þjóðþinga víða en sum lönd hafi þó verið seinni til, „það er til dæmis ekki fyrr en 1944 í Frakklandi, því mikla lýðræðisríki, auk þess sem verið var að þrengja að réttindum kvenna í þessum fasísku ríkjum, það er verið að taka réttindi af konum svo eitthvað sé nefnt,“ heldur Erla áfram.
Nefnir hún að réttur giftra kvenna til útivinnu hafi verið takmarkaður, Bretar hafi til dæmis verið seinir til að leyfa giftum konum að vinna á vettvangi hins opinbera og í stjórnsýslunni. Á millistríðsárunum hafi sú hugmyndafræði verið ríkjandi að konur ættu að halda sig inni á heimilunum og ala upp góða þegna.
„Konur máttu þó vinna ákveðin umönnunarstörf, þær máttu vera hjúkrunarfræðingar, kennarar og jafnvel læknar þar sem það féll að þessari kvenímynd. Svo það sem ég ætla að tala um í þessu erindi er þessi umræða sem er í gangi á millistríðsárunum, baráttumálin og það sem Ingibjörg og aðrar kvenréttindakonur stóðu fyrir á þessum tíma og þetta samhengi sem þær eru í.
Smæð okkar á Íslandi gerði konum auðvitað erfiðara fyrir, möguleikarnir voru færri á Íslandi, við vorum aftast þegar kom að stjórnmálalegum réttindum og réttindum til menntunar og embætta þótt íslenskar konur hafi verið tiltölulega snemma í því. En ef við berum okkur saman við ýmis lönd þá erum við seinni í því að sjá konur fá að iðka þessi réttindi,“ segir Erla Hulda Halldórsdóttir prófessor en auk hennar eru frummælendur á málþinginu á mánudaginn Íris Ellenberger, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir.