Efnahagslegur ávinningur Íslands af orkuskiptum fram til ársins 2060 getur numið 1.400 milljörðum króna, sem samsvarar fjármögnun heilbrigðiskerfisins í nær 5 ár. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Eflu um efnahagsleg áhrif orkuskipta.
Ísland notar um milljón tonn af olíu árlega sem kostar um 100 milljarða króna sem jafngildir verðmæti alls afla úr sjó við Ísland í 6 mánuði. Í skýrslunni er rakið að jarðhiti er helsti orkugjafi Íslands.
Skipting orkunotkunar Íslands án húshitunar er 60% raforka og 40% olía. Ísland telst nettó innflytjandi á orku þar sem orkuframleiðsla hér á landi dugar ekki fyrir orkunotkun.
Markmið stjórnvalda er að Íslands nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum árið 2040 og verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja en orkuskipti ganga út á að hætta að nota óendurnýjanlega orkugjafa á borð við olíu og nota þess í stað endurnýjanlega orkugjafa á borð við vatn, jarðvarma, vind og sól.
Samtök iðnaðarins, Samorka og Efla hafa þá opnað nýjan upplýsingavef sem ber heitið orkuskipti.is. Þar er að finna allar upplýsingar um orkunotkun, orkuskipti og efnahagslegan ávinning Íslands af orkuskiptum. Var vefurinn kynntur í Kaldalóni í Hörpu klukkan 14.00 í dag.