„Það sem var kynnt í gær eru áætlanir mennta- og barnamálaráðherra sem ætlar að leggja fram frumvarp um lagabreytingu svo hægt verði að setja á fót nýja stofnun með víðtækara hlutverk en Menntamálastofnun gegnir núna. Það mun auðvitað taka tíma í meðferð þingsins því að lokum er það ákvörðun Alþingis hvort það gengur eftir að leggja niður Menntamálastofnun í núverandi mynd og setja nýja stofnun á laggirnar,“ segir Þórdís Jóna Sigurðardóttir, nýráðinn forstjóri Menntamálastofnunar og sú sem var ráðin til að stýra verkefni um lagabreytingar með mennta- og barnamálaráðuneyti.
Hún segir að gera megi ráð fyrir að það liggi ekkert ljóst fyrir fyrr en eftir áramót.
Í gærmorgun hélt Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, fund með starfsfólki Menntamálastofnunar þar sem hann kynnti áætlanir ráðuneytisins um að leggja niður stofnunina og breyta lagaumhverfinu svo hægt væri að setja á stofn nýja þjónustumiðstöð fyrir skólakerfi landsins á öllum stigum. Eftir hádegið hitti síðan Þórdís starfsfólkið og átti með því langan fund.
„Starfsfólkið var upplýst um að málefni stofnunarinnar væru að fara í þetta ferli og þótt það sé svolítill tími í þetta þá er það þannig að þegar stofnunin verður lögð niður þá þýðir það samhliða að störfin leggjast niður. Síðan verða öll störfin auglýst fyrir nýja stofnun eða þar sem verkefni verða hugsuð annars staðar. Þessar fregnir eru auðvitað gríðarlega erfiðar fyrir starfsfólk Menntamálastofnunar, að heyra að þessar miklu breytingar standi fyrir dyrum. Við munum reyna að styðja við það á sem bestan hátt á meðan á þessari óvissu stendur.“
Aðspurð segist hún ekki geta svarað því hvort einhverjir innan stofnunarinnar muni missa störf sín alveg, því það sé ekki vitað á þessum tímapunkti. Það sem sé vitað núna er að það standi til að efla mjög mikið alla þjónustu í kringum skólakerfið. Hún segir að mikill mannauður og reynsla sé innan Menntamálastofnunar. „Ég ætla að leyfa mér að vera svolítið bjartsýn fyrir þeirra hönd. En á sama tíma er það lögbundið að það þarf að auglýsa öll störf í nýrri stofnun.
„Ég var alveg búin undir ýmislegt, því ég geri mér grein fyrir að óvissa er alltaf erfið. En ég verð samt að segja að þegar á reynir þá sýnir fólk oft það sem í því býr. Það voru bara ótrúlegar móttökur sem ég fékk í gær og mér fannst fólk mjög tilbúið að leggja sitt af mörkum svo að þessi sýn sem ráðherra er að leggja fram geti orðið að veruleika. En ég veit líka að það getur komið síðar fram hvernig fólki líður með þetta, enda var þetta allt að gerast í gær. En fyrstu viðbrögð voru bara ótrúleg,“ segir Þórdís og segist vilja hrósa starfsfólki stofnunarinnar fyrir hvað það var stórhuga.
Þórdís segir að núna taki við mikil vinna og samvinna við sérfræðinga, hagsmunaaðila því það sé ekki á færi eins aðila að gera þær gríðarlega miklu kerfisbreytingar sem standi fyrir dyrum.
„Það þurfa margir að koma að borðinu, því okkur er mikil alvara með að auka þjónustu skólanna, bæta líf barna og auðvelda kennurum starfið. Það eru mörg, bæði sértæk og víðtækari, vandamál sem koma upp innan skólakerfisins þar sem kennarar þurfa stuðning. Við erum oft með stórar hugmyndir um hvað eigi að gera innan skólanna, en stuðningur við kennara er lítill. Við viljum að þetta takist og verði til þess að skólakerfið styrkist. En þá þurfum við öll að vinna að því saman. En eins og ég segi, þá leyfi ég mér að vera bjartsýn, þótt ég viti að óvissan sé erfið. Við munum gera okkar besta í því að aðstoða fólk á meðan á þessari óvissu stendur.“
Hún segir að við upphaf þessa ferðalags finni hún mikinn og góðan meðbyr frá öllum. „Vonandi náum við að gera það sem þarf til þess að hvert og eitt barn blómstri. Það er ekkert minna sem við sættum okkur við.“