Fjórir skjálftar í Heklu frá miðnætti

Fjórir skjálftar hafa mælst í grennd við Heklu frá því …
Fjórir skjálftar hafa mælst í grennd við Heklu frá því á miðnætti. mbl.is/Sigurður Bogi

Töluvert hefur hægt á skjálftahrinunni sem hófst á sunnudagskvöldið um 50 km suðvestur af Reykjanestánni. Náttúruvársérfræðingur segir að svo virðist sem hrinunni sé lokið í bili en bara örfáir skjálftar hafa mælst síðastliðinn sólarhring.

Skjálftahrinan stóð sem hæst frá klukkan hálfníu á sunnudagskvöld og fram á mánudagsmorgun. Stærsti skjálftinn var 4,4 að stærð og sá næststærsti 4,3 að stærð.

„Það eru flekaskil þarna og það bendir ekki til að þetta hafi verið kvikutengt,“ segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, og bætir við að ekkert landris hafi mælst á svæðinu.

Fjórir skjálftar í Heklu

Þá hafa fjórir jarðskjálftar mælst í Heklu frá því á miðnætti. Ekkert gas hefur þó fylgt og engar breytingar hafa komið fram á hallamælum, að sögn Lovísu.

Skjálftarnir hafa allir verið nokkuð vægir en sá stærsti var 1,2 að stærð. Hinir þrír voru allir undir einum að stærð.

Veðurstofan fylgist þó áfram með þróun mála.

Engin merki um gosóróa í Mýrdalsjökli

Aukin skjálftavirkni var í Mýrdalsjökli yfir helgina. Mælar sýndu tvo skjálfta af stærðinni 3 og einn af stærðinni 3,8. Allir voru þeir staðsettir nærri sigkötlum 10 og 11 í austanverðri Kötluöskju. Þá var ekki talið útilokað að hlaup myndi hefjast í Múlakvísl og var varað við ferðum við ána.

Að sögn Lovísu hefur ekki hækkað í ám undir jöklinum og sömuleiðis hafa engin merki verið um gosóróa. Þá hafa einungis fimm skjálftar mælst í jöklinum frá því á sunnudaginn, enginn yfir þremur að stærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert