Í bókinni Mennirnir með bleika þríhyrninginn er rakin saga Austurríkismannsins Josef Kohout, sem handtekinn var af Gestapo, leynilögreglu nasista, skömmu fyrir upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar og færður í fangabúðir vegna þess að hann var samkynhneigður. Þar var honum svo haldið við vægast sagt ömurlegar aðstæður þar til stríðinu lauk. Í eftirmála að bókinni fjallar Hafdís Erla Hafsteinsdóttir um samkynhneigð í Þýskalandi á árunum fyrir og eftir stríð og um bleika þríhyrninginn sem hommar þurftu að bera í fangabúðunum og varð síðar að baráttumerki samkynhneigðra.
Bandarískir hermenn frelsuðu Josef Kohout og aðra fanga í Flossenbürg-fangabúðunum í lok apríl 1945, en þrátt fyrir algert hrun þriðja ríkisins var lagagrein 175 enn í fullu gildi, eins og kemur fram í eftirmála Hafdísar. Hún segir og í spjalli í Dagmálum að Kohout og aðrir samkynhneigðir karlmenn hafi því enn verið taldir glæpamenn þegar þeir losnuðu og þó þeir hafi orðið fyrir barðinu á nasistum fengu þeir ekki viðurkenndar skaðabætur vegna misréttisins fyrr en 2002, þegar nánast enginn var eftir til að taka við þeim bótum, en Kohout lést 1994.
Mikilvæg þekking og vitneskja
— Frásögn Kohout af hörmungunum sem hann gekk í gegnum er blátt áfram og skýrslukennd, ekki skrifuð af miklu listfengi.
„Hún er skrifuð 1965-67, en þá tekur Hans Neumann félagi Kohout viðtöl við hann sem urðu að bókinni. Þeir eru að vinna að þessu rétt fyrr stúdentaóeirðirnar í Evrópu og rétt fyrir Stonewall uppþotið, áður en frelsisbylgja ríður yfir 1969 og árin eftir það, og á þeim tíma þá er samfélag samkynhneigðra mjög neðanjarðar. Vegna þess að samkynhneigð var enn ólögleg fengu hommarnir ekki stríðskaðabætur og voru ekki hluti af úrvinnslu úr fortíðinni og því sem kallaðist wiedergutmachung, að gera hlutina góða aftur. Ég held að Josef hafi verið mjög meðvitaður um það að það hafi fáir lifað af, að það séu fáir til frásagnar, og að hann byggi yfir þekkingu og vitneskju sem sé mjög mikilvæg. Þess vegna leyfir hann sér ekki að fara út í mjög tilvistarlegar pælingar eða mög djúpar tilfinningar - þetta er skýrslukennt, blátt áfram, næstum því þurrt á köflum vegna þess að ég tel að honum sé mikið í mun að vera tekinn trúanlegur.“
Lagagrein 175 var í fullu gildi eftir stríð, eins og getið er. Í Austur-Þýskalandi var hætt að framfylgja lögunum 1954 og þau síðan afnumin 1968, en í Vestur-Þýskalandi voru þau ekki afnumin a fullu fyrr en við sameiningu þýsku ríkjanna 1994. Hafdís segir að fleiri hafi verið lögsóttir vegna brota á grein 175 eftir stríð.
„Tölulegar rannsóknir sýna að það voru í raun og veru fleiru dæmdir á grundvelli þessarar lagagreinar eftir stríð og þar til hún var afnumin heldur en allan tímann fyrir stríð og á stríðsárunum, þó að sjálfsögðu verði að gera þann greinarmun að það var ekki verið að dæma fólk í þrælkunarbúðir, en það voru miklu fleiri dæmdir og harðar gengið eftir því. Þessi dómharka, sú einurð að ganga svo hart gegn þessu samfélagi karla sem byrjað var á á tíma Þriðja ríkisins hélt áfram, það var enginn afsláttur gefinn á það.“