Velta margra stærstu atvinnugreina landsins hefur aukist um tugi prósenta milli ára, ef horft er til tímabilsins frá janúar og fram í ágúst.
Það má lesa úr nýbirtum tölum Hagstofunnar um veltu samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum.
Meðal annars hefur veltan af álframleiðslu aukist um 100 milljarða króna, líkt og hér er sýnt á grafi, en það skýrist ekki síst af hærra álverði. Veltan af flutningum með flugi – farþega- og vöruflutningum – eykst sömuleiðis um 100 milljarða.
Við þennan samanburð þarf að hafa í huga að framleiðslugeta margra greina var skert í farsóttinni á fyrri hluta árs í fyrra og á það þátt í að veltan eykst svo mikið. Þá hefur vaxandi verðbólga haft sitt að segja, enda hefur verðlag almennt hækkað.
Það birtist meðal annars í aukinni veltu olíufélaganna en veltan af heildsölu með eldsneyti jókst um 82 milljarða milli ára, í kjölfar hækkandi heimsmarkaðsverðs á olíu og meiri orkunotkunar í hagkerfinu.
Þá eiga stóraukin umsvif bílaleiga þátt í að velta leigustarfsemi, að fasteignaleigum undanskildum, eykst um tæplega 22 milljarða króna.
Veltuaukningin er að nokkru leyti tímabundin og háð heimsmarkaðsverði á hrávöru. Til dæmis hefur álverð gefið nokkuð eftir undanfarið. Það mun að óbreyttu birtast í tekjum af sölu raforku, enda er orkuverðið að hluta tengt álverði. Tekjur af orkusölu jukust mikið í ár.