Stjórnarskrárfélagið málaði hönd Danakonungs bláa

Með fréttinni fylgir myndskeið af gjörningnum.
Með fréttinni fylgir myndskeið af gjörningnum. Skjáskot af myndskeiði

Stytta Kristjáns níunda Danakonungs varð andlag gjörnings Stjórnarskrárfélagsins í dag, þegar hönd hennar var máluð með blárri málningu. 

Í tilkynningu frá félaginu er gjörningurinn útskýrður. Var hann til þess að minna á að Íslendingar búi „enn við þessa úreltu dönsku stjórnarskrá, þrátt fyrir að hafa samið okkur og samþykkt grunn að nýrri stjórnarskrá sem sjálfstæð og fullvalda þjóð í lýðræðisríki fyrir 10 árum.“

Stjórnarskrárfélagið hyggst halda upp á afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar með kaffi og kökum á Austurvelli í fimmtudag, milli klukkan fimm og sjö síðdegis. 

Er þess krafist að Alþingi taki fyrir og afgreiði tillögur sem hlutu meirihluta atkvæða í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðlu árið 2012. Unnið sé úr tillögunum heildstætt frumvarp að nýrri stjórnarskrá. 

„Vér mótmælum öll“

„Vilji landsmanna nær ekki fram að ganga. Blá hönd andlýðræðislegra stjórnarhátta, afturhalds og sérhagsmuna er enn á lofti og heldur í krepptum hnefa dauðahaldi um úrelta stjórnarskrá sem kjósendur hafa hafnað fyrir nýja. Bláu höndinni er umhugað um auð sinn og völd og hún gefur lítið fyrir vilja almennings. Að þessu sinni hefur hún aðsetur á Íslandi en ekki í Kaupmannahöfn. Líkt og á 19. öld er komið í veg fyrir að landsmenn eignist stjórnarskrá sem þeir sjálfir hafa samið sér. Nóg er komið af því. Vér mótmælum öll! Það er réttur fólksins í landinu að leggja grunn að samfélagi sínu í samræmi við óskir sínar og drauma. Engir aðrir eiga þann rétt. Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn.“

Þá kemur fram að við hæfi væri að hefja ferlið með því að forseti Alþingis bæði fólkið í landinu afsökunar á þeim töfum sem orðið hafa á nýrri stjórnarskrá. 

Undir tilkynninguna ritar Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert