Tengsl við erlendar glæpaklíkur aukist mikið

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, ræddi …
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, ræddi skipulagða glæpastarfsemi við mbl.is í kjölfar nefndarfundar með fulltrúum ríkislögreglustjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við fengum fulltrúa frá embætti ríkislögreglustjóra til að fara með okkur yfir skipulagða brotastarfsemi,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, í samtali við mbl.is, spurð út í fund nefndarinnar í morgun.

Á fund Bryndísar og nefndar hennar gengu þeir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, og Helgi Valberg Jensson, yfirlögfræðingur og staðgengill ríkislögreglustjóra.

„Við vorum með skýrsluna [um skipulagða brotastarfsemi] frá 2021 undir og vorum að spyrja út í hana en líka þróunina og hvernig staðan væri í dag,“ segir þingmaðurinn frá og bætir því við að von sé á nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra um málaflokkinn í þessari viku. Þróunin sé hröð og margt að gerast á vettvangi skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi sem á meginlandi Evrópu.

96 fíkniefnamál á landamærum 1. september

„Við þurfum að hafa varann á gagnvart mörgu og gestir nefndarinnar eru þarna öllum hnútum kunnugir. Þeir sögðu okkur af samstarfi sínu við hin norrænu ríkin og [evrópsku löggæslustofnunina] Europol sem hefur aukist mikið. Áhyggjuefnin eru fíkniefni, mansal, smygl á fólki og netglæpir. Málum á landamærunum hefur fjölgað mikið, fíkniefnainnflutningi sem sagt,“ segir Bryndís.

Í tölfræði Karls Steinars og Helga hafi komið fram að fíkniefnamál á landamærum hafi verið 51 allt árið í fyrra en 1. september í ár hafi þau verið orðin 96 á árinu, þá að ótöldum tíu erlendum málum í hverjum upplýsingar frá íslenskri lögreglu urðu til þess að fíkniefnasmygl til Íslands var stöðvað á erlendri grundu.

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, kom fyrir þingnefnd í …
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, kom fyrir þingnefnd í morgun og gerði grein fyrir gangi mála í skipulagðri brotastarfsemi. mbl.is//Hari

Telur Bryndís, í ljósi þessa mikla innflutnings fíkniefna og þar með neyslu þeirra, koma til greina að fara sömu leið og Portúgal og fleiri ríki hafa farið – að afnema refsingar við neysluskömmtum, nokkuð sem lengi hefur verið rætt á Íslandi, í Noregi og fleiri norrænum ríkjum?

„Já, mér finnst það koma til greina og það er eitthvað sem verið er að skoða,“ svarar Bryndís, „en ég átta mig líka á því að það mál verður að hugsa til enda [...] Ég hef svo sem ekki kynnt mér stöðuna í þessum löndum sem hafa farið þessa leið, hef bara heyrt af þessu, og ég er alveg tilbúin að taka þetta samtal og átta mig betur á því sem þar býr að baki. Eins og kom fram í viðtali nýlega við Valgerði Rúnarsdóttur, yfirlækni á Vogi, er framkvæmdin hjá okkur ekki endilega refsistefna en lögin eru hins vegar í þá átt,“ segir nefndarformaðurinn og vísar í viðtal við yfirlækninn í þættinum Sprengisandi í fyrradag.

Mann langar alltaf að vera bláeygður

Kveður hún Karl Steinar og Helga hafa bent nefndinni á þá gríðarlegu fjármuni sem eru undir og þá áhættu sem felist í því að erlendar glæpaklíkur misnoti til dæmis flóttamenn og hælisleitendur, hvort tveggja sem burðardýr fíkniefna og í aðra ólöglega starfsemi.

Kom eitthvað á óvart í þeim upplýsingum sem fulltrúar ríkislögreglustjóra lögðu fram?

„Ég veit það ekki. Mann langar alltaf að vera svolítið bláeygður og trúa því bara að hlutirnir gangi bara sæmilega fyrir sig en því miður er það ekki þannig og þetta opnar bara augu manns fyrir því hve alvarleg þessi mál eru,“ segir Bryndís.

Skotvopn sem lögregla lagði hald á við hryðjuverkarannsókn nú á …
Skotvopn sem lögregla lagði hald á við hryðjuverkarannsókn nú á haustdögum. Tengsl við erlendar glæpaklíkur hafa aukist að sögn Karls Steinars og Helga auk þess sem brotamenn misnoti í æ ríkari mæli hælisleitendur, flóttamenn og aðra sem í vök eiga að verjast. mbl.is/Hólmfríður María

Hún segir fulltrúa ríkislögreglustjóra fyrst og fremst hafa bent á að skipulögð glæpastarfsemi og tengsl við erlendar glæpaklíkur hafi aukist að umfangi. „Við sjáum fleiri og fleiri slík mál hér á landi,“ segir Bryndís.

Enn fremur kveðst hún vinna að því að búa allsherjar- og menntamálanefnd undir hugsanleg mál frá dómsmálaráðherra sem snúi að vörnum gegn afbrotum. „Þetta var ágætiskynning á viðfangsefnum lögreglunnar áður en við þurfum að takast á við möguleg mál sem fela í sér einhverjar breytingar á lagaumhverfinu,“ segir Bryndís.

Sérfræðiþekkingar er þörf

Er hún sammála því sem af og til hefur heyrst frá talsmönnum íslenskrar löggæslu um að lögregla landsins sé undirmönnuð og fjársvelt?

„Nei, ég er ekki sammála því en það má örugglega gera betur og þeir voru að benda á það líka að þarfir lögreglunnar séu aðrar nú en áður. Hún þarf ýmiss konar sérfræðinga og öllum er ljóst að það er skortur á menntuðu lögreglufólki. Þessi upplýsingamiðaða löggæsla núna er af öðrum toga en var hér áður og mun meiri sérfræðiþekkingar er þörf til að skoða brot sem geta haft anga út í svo marga kima samfélagsins,“ segir hún.

Hvað þykir henni þá um svokallaðar forvirkar rannsóknarheimildir sem lögregla telur sig ekki hafa nægar heimildir til, svo sem fram kom í viðtali mbl.is við Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjón, í sumar?

„Ég hef ekki myndað mér skoðun á því en ég held að við þurfum að fara mjög varlega þar. Við fórum aðeins inn í þá umræðu og þeir [Karl Steinar og Helgi] bentu sérstaklega á tvo þætti sem lögreglan hefur bent á áður. Það eru þessir 24 klukkutímar sem lögregla getur haldið viðkomandi án þess að óska eftir gæsluvarðhaldi. Þeir óskuðu eftir því að þetta yrði hækkað í 36 klukkustundir, lögreglan hefur lengi bent á það og þá einungis í mjög sérstökum málum,“ segir Bryndís.

Fíkniefnamálum á landamærum hefur fjölgað, voru þau 51 allt árið …
Fíkniefnamálum á landamærum hefur fjölgað, voru þau 51 allt árið í fyrra en orðin 96 á þessu ári í byrjun september. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Einnig þyki lögreglu 12 vikna hámarkstími gæsluvarðhalds áður en ákæra er lögð fram knappur í sumum brotamálum. „Miðað við eðli brota oft og tíðum. Þú ert nú í Noregi og mér finnst einmitt fara vel á því að við skoðum hvernig þessar reglur eru í hinum norrænu ríkjunum. Þú spyrð um heimildir lögreglunnar og ég hallast ekki að neinni amerískri leið í þeim efnum, frekar bara hvað er að gerast á Norðurlöndunum,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður og nefndarformaður allsherjar- og menntamálanefndar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka