„Það má alveg koma fram, að við Harpa værum ekki hér ef ekki væri fyrir hormónameðferð. Þetta var alveg alvöru,“ sagði Sonja Bergmann um reynslu sína og Hörpu Lindar Hilmarsdóttur af breytingaskeiðinu.
Voru þær, sem báðar eru hjúkrunarfræðingar hjá GynaMedica mættar til að halda erindi á Grand Hótel, þar sem alþjóðlegur dagur breytingaskeiðs kvenna var í fyrsta skipti haldinn hátíðlegur hér á landi.
Strax var undirstikað mikilvægi þess að fólk geri sér grein fyrir því hvað gerist á breytingaskeiðinu og fór Sonja yfir helstu hugtök auk líkamlegra og andlegra einkenna.
„Þetta er mjög mikilvægt fyrir alla að vita,“ sagði Sonja um helstu einkenni, bæði líkamleg og vitsmunaleg.
Sem dæmi nefndi Sonja að oft á tíðum væri konum á breytingaskeiðinu ávísuð þunglyndis- og/eða kvíðalyf sem síðan ekki virkuðu, sterk vísbending um að það sé ekki þunglyndi sem þær þjást af.
Harpa Lind tók við og talaði um meðferðir og bjargráð. Þar sé hormónameðferð áhrifaríkasta leiðin til að slá á einkenni breytingaskeiðs, sem gengur út á að bæta upp hormónaskortinn og jafna út þær sveiflur sem verða á skeiðinu.
Þekking sé að aukast um virkni meðferðarinnar og vitað að hún bæði virki og sé örugg. Þrátt fyrir það sé aðeins 10-20% kvenna sem sæki sér meðferðina.
Harpa sagði mikilvægt þó að muna að meðferðin dugi ekki ein og sér, passa skuli enn upp á að huga enn að heilsunni samhliða meðferðinni, á borð við svefn, hreyfingu, næringu og andlega heilsu. Þar sé heildræn nálgun mikilvæg.
„Við erum með nýtt púsl í höndunum og þurfum að finna út úr því hvernig við röðum þessu púsli saman. Ef okkur tekst það vel getum við sannarlega bætt við mörgum gæðaárum við lífið.“