„Það hefur alveg verið skýrt hér hjá yfirvöldum í skýlinu hérna að það verði ekkert hægt að vera lengur hér en til klukkan tíu á morgnana. Í þessum töluðu orðum er verið að hringja á lögregluna sem kemur hingað til að vinna skítverkin fyrir þá og fjarlægja okkur úr skýlinu,“ segir Ragnar Erling Hermannsson, talsmaður Viðmóts, hagsmunafélags um réttindi vímuefnaneytenda.
Félagið efndi til setuverkfalls í morgun í annað skiptið í þessum mánuði. Það var stofnað í tengslum við baráttu heimilislausra karlmanna til að geta átt sér eitthvert skjól yfir daginn þegar vetrarhörkur fara að herja á. Farið er fram á að mennirnir fái aðgang að húsaskjóli yfir daginn, sambærilegu við Skjól, sem er dagsetur fyrir heimilislausar konur, sem Hjálparstarf kirkjunnar rekur.
Ragnar segist vera orðinn vanur því að lögreglan sé kölluð til að fjarlægja þá úr neyðarskýlunum á morgnana. „Ég er farinn að kalla þá svörtu og hvítu hrafnana mína," segir hann og bætir við að honum finnist eins og lögreglan sé heldur ekkert sátt við að þurfa að henda þeim út í öllum veðrum.
„Við erum meira að segja sendir út í hrikalegt veður í gulum viðvörunum þegar allir aðrir eiga að halda sig innandyra," segir Ragnar og segir heimilislausa karlmenn ekki hafa nein góð úrræði yfir daginn. „Við fáum stundum að sitja á kaffistofunni hjá Samhjálp, en ekki eftir tvö á daginn. Eftir það er ekkert nema gatan, alveg sama hvernig viðrar og hversu veikur þú ert."
Aðsóknin að neyðarskýlum borgarinnar hefur aukist mikið á þessu ári og segir Ragnar að yfirleitt leiti um það bil fimmtíu karlmenn skjóls í skýlunum á Granda og Lindargötu. Oft komist færri að en vilja, þótt reynt sé að láta fólk sofa á sófum og öðru til að koma þeim fyrir. Neyðarskýlin loka alla daga klukkan tíu og opna ekki aftur fyrr en klukkan 17 og segir Ragnar að þetta ástand sé hrikalegt þegar fer að kólna.
„Okkur er bara vísað út á guð og gaddinn eins og hundum í öllum veðrum. Þetta er allt í lagi á sumrin, þegar veðrið er skárra og maður getur verið einhvers staðar úti í sólinni, en það er bara hrikalegt að sjá fársjúka menn senda beint á götuna. Það var verið að henda út hérna ungum morfínfíkli sem var alveg hrikalega veikur og þetta er bara ekki hægt,” segir Ragnar.
Í dag er borgarstjórnarfundur þar sem Ragnar segir Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa sósíalista, ætla að bera upp málefni þeirra. Sanna segir að þetta sé í annað skipti sem sósíalistar fjalli um þetta málefni í borginni en í fyrra skiptið hafi málið verið sett í nefnd þar sem segja megi að það hafi dáið drottni sínum. „Það þarf að finna lausn á þessu máli strax og neyðarskýlin þurfa að vera opin allan sólarhringinn eða hafa dagsetur fyrir heimilislausa karlmenn,” segir Sanna. Hún segir að það gangi ekki að horfast ekki í augu við neyð þessa hóps og það þurfi aðgerðir.
„Við erum ekki að fara fram á neitt nema að geta verið einhvers staðar í skjóli og hafa aðgang að salerni,” segir Ragnar. „Þetta er algjör niðurlæging að finna að maður skipti engu máli.“
Hann segist þó vona til að eitthvað komi út úr fundinum í dag í borgarstjórn. „Við kannski mætum bara allir sem getum í Ráðhúsið á þennan fund.“