Tólf hross sem sættu illri meðferð í grennd við Borgarnes voru send í sláturhús í gær og var eitt aflífað á staðnum eftir skoðun. Var það mat Matvælastofnunar (MAST) að ástand skepnanna væri svo alvarlegt að aðgerðir þyldu ekki bið.
Í tilkynningu frá stofnuninni kemur fram að hrossin hafi verið verulega aflögð (þ.e. mögur) auk þess sem nokkur þeirra hafi verið gengin úr hárum.
Stofnunin sendi umráðamanni hrossanna tilkynningu um vörslusviptingu á mánudaginn og kom hún til framkvæmdar í gær með aðstoð lögreglu. Hrossin voru rekin þangað sem hægt var að skoða þau ítarlega og holdastiga og var það mat MAST að aflífa þyrfti þrettán þeirra.
Tíu hross til viðbótar voru enn metin í viðkvæmu ástandi vegna rýrs holdafars en þrátt fyrir það var þeim skilað til umráðamanns ásamt þeim hrossum sem MAST taldi vera í ásættanlegum holdum.
Steinunn Árnadóttir, íbúi í Borgarnesi, vakti fyrst athygli á meðferð hrossanna í ágúst á þessu ári. Í samtali við mbl.is sagði hún umráðamann hrossanna hafa vanrækt dýrin, þau væru lokuð inni og vannærð.
Hestamenn á svæðinu væru æfir yfir meðferð dýranna og að aðgerðaleysi ríkti af hálfu yfirvalda en hún hefði sjálf margsinnis tilkynnt um ástandið til MAST.
Dýralæknir hjá MAST sagði málið þá í ferli.