Hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði hefur farið lækkandi eftir því sem segir í mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Kemur þar fram að 44 prósent íbúða á höfuðborgarsvæðinu hafi selst yfir ásettu verði í ágústmánuði samanborið við 53 prósent mánuðinn á undan.
Meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæði jókst lítillega á milli mánaða og var 41,0 dagur í ágúst í kjölfar 39,7 daga í júlí. Var meðalkaupverð eigna á sama svæði 73,7 milljónir króna í ágúst sem var lækkun annan mánuðinn í röð en í júní var meðalkaupverðið 76,4 milljónir. Seldust íbúðir í fjölbýli að jafnaði á 66 milljónir en í sérbýli á 104,4 milljónir. Er síðarnefnda talan þó nokkur lækkun frá maímánuði þegar meðalverð sérbýliseigna var 116,1 milljón króna.
Enn fremur kemur fram að mánaðarleg greiðslubyrði óverðtryggðra lána sé nú 62.300 krónur fyrir hverjar tíu milljónir sem teknar eru að láni en greiðslubyrðin fór niður í 37.700 kr. Þegar hún var minnst á fyrri hluta síðasta árs. Gerir þetta 65 prósenta hækkun á greiðslubyrði á einu og hálfu ári.
Að mati hagdeildar HMS eru 27 prósent útistandandi íbúðarlána óverðtryggð á breytilegum vöxtum. Gæti samanlögð greiðslubyrði óverðtryggðra lána á breytilegum vöxtum verið um 3,9 milljarðar á mánuði en hefði verið 2,3 milljarðar væru vextir enn í lágmarki.
Íbúðatalning HMS og Samtaka iðnaðarins var framkvæmd í ágúst og september. Samkvæmt henni voru 8.113 íbúðir í byggingu á landinu öllu samanborið við 7.260 í sambærilegri talningu í mars og 6.001 íbúð í september í fyrra. Nemur aukning frá sama árstíma í fyrra því 35,2 prósentum. Er mesta aukningin þar á höfuðborgarsvæðinu fyrir utan sjálfa höfuðborgina, eða í kraganum svokallaða. Þar hefur fjöldi íbúða í byggingu nær tvöfaldast frá því á sama árstíma í fyrra.
Sé eingöngu miðað við íbúðir sem nú þegar eru í byggingu má gera ráð fyrir að í ár og á næstu tveimur árum verði 3.000 til 3.200 íbúðir byggðar á ári. Fasteignamarkaðurinn heldur áfram að kólna og hefur viðsnúningur þar verið nokkuð hraður. Framboð íbúða eykst hratt, íbúðaviðskiptum fækkar og hlutfall sem selst yfir ásettu verði hefur minnkað.
Að þessu virtu telur hagdeild HMS að draga muni verulega úr þeim verðhækkunum sem einkennt hafa fasteignamarkaðinn undanfarin ár en óvíst sé þó hvort fasteignaverð eigi eftir að lækka. Velti það meðal annars á því að hve miklu leyti heimilin séu tilbúin að fjármagna sig á verðtryggðum lánum.
Framboð íbúða til sölu eykst áfram hratt að sögn skýrsluhöfunda. Um þessar mundir eru um 1.300 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu samanborið við 1.049 í byrjun september, lágmarkinu var náð í febrúar þegar innan við 450 íbúðir voru til sölu. Þar með hefur framboðið nær þrefaldast á þeim átta mánuðum sem síðan eru liðnir og nemur aukningin 89 prósentum frá júlílokum.
Tæplega 500 íbúðir eru nú til sölu í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og 382 annars staðar á landsbyggðinni. Hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,8 prósent milli mánaða í september en í ágúst lækkaði það um 0,4 prósent miðað við vísitölu íbúðaverðs.
Þriggja mánaða hækkun vísitölunnar mælist nú 1,5 prósent en var 9,1 prósent í maí. Hefur einkum dregið úr verðhækkunum íbúða í fjölbýli sem lækkuðu um 0,1 prósent milli mánaða í september eftir að hafa hækkað um 0,1 prósent mánuðinn áður, segir í skýrslu HMS.