Á 200 km hraða og stakk lögreglu tvisvar af

Í bæði skiptin ók maðurinn á ofsaakstri um Ásbrúarsvæðið, en …
Í bæði skiptin ók maðurinn á ofsaakstri um Ásbrúarsvæðið, en mest mældist hann á 200 km hraða á Reykjanesbraut annars vegar og Hafnavegi hins vegar. mbl.is/Sigurður Bogi

Tæplega tvítugur karlmaður hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir að hafa í tvígang stofnað lífi og heilsu annarra vegfarenda í augljósan háska með því að hafa ekið bifreið sinni á allt að 200 km hraða á Reykjanesi, annars vegar í þéttbýli í Reykjanesbæ og á Reykjanesbraut og hins vegar um atvinnuhverfi og í nálægð við íbúðahverfi á Ásbrú og á Hafnavegi, en í bæði skiptin sinnti maðurinn ekki stöðvunarskyldu lögreglu og stakk af.

Málið var þingfest fyrr í þessum mánuði, en í ákæru kemur fram að í fyrra tilvikinu, sem átti sér stað 8. apríl á þessu ári,  hafi maðurinn ekið Volvo-bifreið suður Hafnargötu í átt að hringtorgi við Vatnsnesveg þar sem lögreglan hafi gefið honum merki um að stöðva akstur sinn. Því sinnti maðurinn ekki og jók hraðann og hófst eftirför lögreglunnar.

Á 200 km hraða í þéttbýli í Reykjanesbæ

Ók maðurinn suður Hafnargötu og suður Njarðarbraut nálægt Hljómahöll á allt að 139 km hraða, en leyfður hámarkshraði er þar 50 km hraði. Hélt maðurinn áfram í átt að Innri-Njarðvík á allt að 170 km hraða þar sem hámarkshraði er áfram 50 km á klst. Maðurinn hélt áfram á austur Stapabraut og á hringtorgi við Njarðvíkurveg tók hann stefnuna í átt að Reykjanesbraut og þar í vestur átt að Fitjum á allt að 180 km hraða, en hámarkshraði þar er 90 km á klst.

Fór maðurinn því næst suður Hafnaveg og svo suður Þjóðbraut á allt að 140 km hraða og var hann þá aftur kominn á 50 km svæði. Næst lá leiðin austur Grænásbraut og inn á Austurbraut, án þess að virða stöðvunarskyldu á gatnamótum, og á ný að Hafnavegi og á Reykjanesbraut og í átt að Grindavíkurvegi. Þar mældist hann á allt að 200 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km á klst. Sneri maðurinn þar við og hélt aftur í átt að Keflavík og inn á Dalsbraut þar sem lögregla missti sjónar á bifreiðinni en fann hana skömmu síðar í bílastæði við Dalsbraut.

Aftur á ferð hálfum mánuði síðar

Seinna skiptið átti sér stað hálfum mánuði síðar, eða 22. apríl. Var hann þá aftur á sömu bifreið og án ökuréttinda og ók austur Grænásbraut á 181 km hraða eftir að lögregla hafði gefið honum merki um að stöðva bifreiðina. Hélt eftirför lögreglu áfram suður Heiðartröð, norður Klettatröð, austur Flugvallarveg og inn á Hafnaveg og í átt að Höfnum á allt að 200 km hraða, en hámarkshraði þar er 70 km á klst. Þar missti lögregla sjónar af bifreiðinni en fann hana síðar mannlausa við Gunnuhver.

Fram kemur í ákærunni að maðurinn hafi með háttsemi sinni „raskað umferðaröryggi á alfararleið og stofnað á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu annarra vegfarenda í augljósan hásaka, þar á meðal lögreglumannanna sem reyndu að stöðva aksturinn.“ Tekið er fram að í fyrra skiptið hafi verið um að ræða ofsaakstur í þéttbýli þar sem vænta má umferðar á öllum tímum sólarhrings og að skyggni hafi verið slæmt vegna myrkurs.

Í síðara tilfellinu er ökumaðurinn einnig sagður hafa stefnt lífi og heilsu tveggja farþega sem voru í bifreiðinni í hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert