Karlmaður hefur verið ákærður af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fyrir að hafa ítrekað skoðað og haft undir höndum hundruð mynda og myndskeiða sem sýndu börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt.
Málið var þingfest í síðustu viku, en í ákæru þess kemur fram að maðurinn hafi ítrekað skoðað slíkt efni og hafi 99 slíkar ljósmyndir fundist í eyddum skrám í tækjum í fórum hans auk ummerkja um vefvöfrun á slíku myndefni.
Segir einnig í ákærunni að við skoðun hafi fundist 286 myndir sem sýndu samskonar efni fundist í flýtiminni síma mannsins.
Farið er fram á refsingu í samræmi við 2. mgr. 210 gr. a. í almennum hegningarlögum, en þar segir: „Hver sem skoðar myndefni á netinu eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni sem sýnir kynferðislega misnotkun á barni eða sýnir barn á kynferðislegan hátt skal sæta sömu refsingu og greinir í 1. mgr.,“ en lagaramminn þar er frá sektum upp í sex ára fangelsi.