Magnús Örn Guðmundsson, stjórnarformaður Strætó, segir að við blasi að bjóða út rekstur Strætó. Erfitt hafi gengið og því ekki hægt að halda úti næturstrætó.
„Því miður voru það mikil vonbrigði hvernig nýtingin var,“ segir Magnús um nýtingu á næturstrætó, sem fallið var frá nýverið.
Magnús tekur fram að um hafi verið að ræða tilraunaverkefni sem farið hafi verið í af samfélagslegri ábyrgð vegna skorts á leigubílstjórum eftir faraldurinn.
Markmiðið virðist vera að fjölga notendum Strætó. Kvartað hefur verið undan Klapp-appi og engir greiðsluposar eru í vögnunum. Hefði þurft að bæta aðgengið?
„Ég held ekki. Við fylgdumst með þessu frá degi eitt og það var mikil vinna lögð í að fylgja þessu eftir og kanna hvað mætti bæta og hvernig væri raunverulega hægt að gera þetta aðgengilegra. Við hlustuðum á allar raddir í þeim efnum og það virtist samt ekki duga til. Það þurfti miklu meiri fjölda.“
Magnús segir nýtingu á næturstrætó hafa verið mun minni en vonast var eftir. Næturstrætó hafi verið það fyrsta sem ákveðið var að taka út, á meðan mikil krafa er á félaginu um bættan rekstur. Stjórn Strætó bs. tók við í sumar. Áætlað var í vor að bjóða upp á næturstrætó til reynslu út september.
„Þetta voru mikil vonbrigði að sjá síðan nýtinguna á þessu, bara leiðinlegt,“ segir Magnús.
„Reksturinn er í molum. Eigið fé er uppurið, það má ekkert út af bregða. Það er talað um 1 til 1,5 milljarð á ári til viðbótar til að láta þetta ganga frá ári til árs. Það þarf miklu meiri fjármuni til að styrkja félagið til lengri tíma,“ segir hann og heldur áfram:
„Það þarf að skipta út vögnum og taka þátt í orkuskiptum af einhverri alvöru. Við erum í lífróðri. Við þurftum að skoða alla þætti rekstursins og felum framkvæmdastjóra að gera tillögu um hvað megi gera. Jafnvel meðfram því erum við að biðja um meira fé frá sveitarfélögum og ríkinu líka. En við þurfum líka að taka til í okkar ranni. Við viljum auðvitað ekki skerða þjónustu nema að þessu marki í dag. Síðan þurftum við að hækka fargjöld en ég held það sé hvergi nærri nóg,“ segir hann.
Skoða megi hvernig útfærslan verði til framtíðar en nær útilokað sé að halda enn úti næturstrætó. Þá þurfi fólk að gera sér grein fyrir stöðu mála þegar talað er um Strætó:
„Sveitarfélögin sem eiga strætó segjast ekki vilja borga krónu meira í strætó. Enda er erfiður rekstur í öllum sveitarfélögum,“ segir hann.
Magnús segir allt kalla á aukna úthýsingu rekstrarins. Víða erlendis úthluti opinber byggðasamlög útboðum og feli einkaaðilum reksturinn.
„Þegar við erum komin í þetta öngstræti með reksturinn eftir Covid, eftir að allt eigið fé strokaðist út,“ segir Magnús. Nauðsynlegt sé þá að skoða frekari útvistun á rekstri Strætó til einkaaðila.
„Það er augljóslega skynsamlegra og betra miðað við öll þau gögn sem eru fyrir framan okkur,“ segir Magnús. Fyrri stjórn hafi skoðað það vel og núverandi stjórn skoði það enn betur og allir séu sammála um að betra sé að fara þá leið. Þá sé liðlega helmingur akstursins þegar í verktöku og því samanburður á útvistun og akstri á eigin flota nærtækur.
„Við erum kannski með vagna á okkar vegum sem standast ekki skoðun með aldur. Meðalaldurinn á vögnum okkar hjá okkur er mun hærri en hjá verktökunum. Úttekt KPMG sýnir fram á hversu hagkvæmari reksturinn yrði, munurinn er í raun sláandi. Kolefnisfótsporið er lægra enda flotinn mun nýrri, og fleira. Hvergi á Norðurlöndum reka sveitarfélögin strætó sjálf, þó þau fjármagni að stærstum hluta,“ segir Magnús.
Það sé krafa frá eigendum að láta reksturinn ganga upp og við blasi að bjóða út reksturinn. Mikil vinna hafi farið í að skoða kosti þess og galla.
„Í eigendastefnu Strætó segir að 40% af rekstrarkostnaði eigi að vera greitt með fargjöldum. Það hefur sjaldan náð yfir 30% og nú er hann um 20%. Við erum að reyna að gera þennan rekstur betri,“ segir Magnús. Enginn hafi notið þess að hækka fargjöld og stjórnin sé almennt hlynnt næturstrætó.
„Þetta er frábært fyrirtæki og það má efla það á marga vegu. Til dæmis með því að bæta tæknimálin, eins og þú nefnir, enn frekar. Þetta tekur langan tíma og það er í raun óþolandi hvað þetta hefur tekið langan tíma. En við erum allavega með mjög gott starfsfólk sem er að hlusta á notendur og gera betur,“ segir hann í lokin.