Reykjavíkurborg þjónustar nú 1.300 manns á flótta. Ekki hafa náðst samningar við sveitarfélög um þjónustuna en einungis fimm þeirra af 64 taka við flóttafólki.
Fyrri samningur borgarinnar við ríkið, um að þjónusta 700 manns á flótta, rann út þann 1. apríl síðastliðinn. Þetta kom fram á fundi borgarstjórnar í gær.
Alvarlegur skortur er á fjármagni frá ríkinu til þess að gera sveitarfélögum kleift að sinna börnum á flótta og jafna stöðu þeirra og tækifæri við stöðu annarra barna, að því er fram kemur í bókun borgarstjórnarflokkanna á fundinum í gær.
„Það er mikilvægt að leysa sem og að fleiri sveitarfélög taki þátt í þessu mikilvæga samfélagslega verkefni að taka á móti fólki á flótta. Hingað til hafa aðeins fimm sveitarfélög tekið þátt af sextíu og fjórum. Stærsta hindrunin er að kostnaður við móttöku barna á flótta lendir nánast alfarið á sveitarfélögum,“ segir í bókun meirihlutans.
Fjöldahjálparstöð var opnuð í Reykjavík í byrjun október vegna fjölgunar flóttafólks og hafa yfir 100 manns gist þar.