Brutu ekki siðareglur en siðanefnd gerir athugasemdir

Bílflakið í fjörunni undir Óshlíðarveginum í september 1973.
Bílflakið í fjörunni undir Óshlíðarveginum í september 1973. Ljósmynd/Ljósmyndasafn Ísafjarðar

Umfjöllun DV og Stundarinnar, um uppgröft lögreglustjórans á Vestfjörðum á líkamsleifum manns sem lést í bílslysi fyrir tæplega hálfri öld, felur ekki í sér brot á siðareglum Blaðamannafélags Íslands. Þetta er niðurstaða siðanefndar félagsins, en þó eru gerðar athugasemdir við vinnubrögð í báðum tilfellum þar sem ekki hafi borist svör frá fjölmiðlunum þegar kærandi leitaði til þeirra um leiðréttingar.

Það er ökumaður bifreiðarinnar, Höskuldur Guðmundsson, sem kærði umfjöllun fjölmiðlanna til siðanefndarinnar. Í tilfelli DV vísaði hann til nafnbirtingar auk þess sem hann taldi umfjöllunina hafa verið ógætilega. Þá sagði hann blaðamann, Ágúst Borgþór Sverrisson, hafa gengið of langt í að draga ályktanir um að hann sé undir rannsókn lögreglu eða grunaður um að hafa valdið öðrum manni bana í slysinu.

Í tilfelli Stundarinnar sagði Höskuldur að blaðamennirnir Helgi Seljan og Aðalsteinn Kjartansson hefðu ekki gætt fyllstu tillitsemi í svo viðkvæmu máli. Þannig hafi verið setið fyrir honum og hann eltur og myndir, eða hugsanlega myndband verið tekið upp af honum. Einnig hafi hann einn verið nafngreindur í umfjöllun Stundarinnar en aðrir notið nafnleyndar.

Báðir miðlar höfnuðu því að hafa brotið siðareglur og vísaði DV meðal annars til þess að Höskuldur hefði komið fram í viðtölum á öðrum miðlum og ekki gert athugasemdir við að ummæli væru höfð eftir honum. Þá segir jafnframt að óhjákvæmilegt hafi verið að draga aðra ályktun en að grunur kynni að falla á Höskuld, líkt og hann sjálfur benti á í viðtali við DV.

Stundin vísar til þess að í sinni umfjöllun sé sérstaklega vísað til þess að Höskuldur hafi ekki stöðu grunaðs manns í rannsókninni og að enginn hafi verið yfirheyrður. Umfjöllunin snúi að lögreglurannsókninni og að gögn málsins sýni að henni hafi verið ábótavant. Þá hafna blaðamennirnir því að hafa setið um Höskuld, en að honum hafi verið boðið að koma eigin sjónarmiðum á framfæri.

Siðanefndin fellst á að uppgröftur lögreglu á tæplega aldargömlum líkamsleifum sé fréttnæmur atburður sem eigi erindi við almenning, jafnvel þótt umfjöllun þar um kunni að valda hlutaðeigandi óþægindum. Þá hafi ekki verið ástæða til að ætla að Höskuldur hafi verið mótfallinn nafngreiningu eftir að hafa veitt fjölmiðlum viðtöl. Þá er ekki heldur fallist á að umfjöllun Stundarinnar hafi verið einhliða eða hafi haft það markmið að skapa tortryggni.

Einn siðanefndarmaður, Sigríður Árnadóttir, taldi að í tilfelli DV og Ágústs hefði verið brotið gegn 3. grein siðareglnanna með því að segja að kærandi sé persónulega undir rannsókn lögreglu vegna manndráps. Aðrir nefndarmenn telja hins vegar að þegar litið sé heildstætt á umfjöllunina hafi siðareglur ekki verið brotnar.

Siðanefndin gerir hins vegar athugasemdir við vinnubrögð beggja miðla í ljósi þess að Höskuldur hafi leitað til miðlanna um leiðréttingar en engin svör fengið. „Það er, að mati siðanefndar, óásættanlegt að slíkum athugasemdum sé ekki sinnt.“ 

Lögreglan hefur hætt rannsókn málsins

Fyrr í þessum mánuði greindi lögreglan á Vestfjörðum frá því að rannsókn hefði verið hætt á tildrögum andláts Kristins Hauks Jóhannessonar, sem lést aðeins 19 ára gamall í slysinu. Niðurstaða rann­sókn­ar­inn­ar er sú að ekk­ert bendi til ann­ars en að farþeg­inn hafi lát­ist af af­leiðing­um um­ferðarslyss. Auk öku­manns voru tveir farþegar í bif­reiðinni sem hafnaði utan veg­ar, ann­ar í fram­sæti og hinn í aft­ur­sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert