Reglur um bifreiðar sem eiga rétt á visthæfum skífum verða ekki endurnýjaðar þegar þær renna út í árslok 2022. Verður því ekki lengur hægt að leggja rafmagns- eða vetnisbifreiðum endurgjaldslaust í 90 mínútur á skilgreindum gjaldsvæðum.
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti tillögu skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar þessa efnis á fundi sínum í morgun en þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Frá því árið 2007 hafa eigendur bifreiða sem uppfylla ákveðin skilyrði varðandi losun koltvísýrings fengið rétt til að leggja bifreið sinni í gjaldskyld stæði í 90 mínútur án endurgjalds en nú er ljóst að sá tími er liðinn.
Í tilkynningu sinni segir Reykjavíkurborg að ekki sé lengur þörf á ívilnun fyrir eigendur rafmagns- eða vetnisbifreiða. Er bent á að þegar reglurnar voru fyrst settar árið 2007 hafi hlutfall visthæfra bíla verið mun lægra en núna.
„Visthæfar skífur höfðu það markmið að búa til hvata fyrir íbúa til að ferðast um á vistvænni ökutækjum. Í dag er fjöldi ökutækja sem ganga fyrir rafmagni orðinn það mikill að ekki er lengur talin þörf fyrir þessari ívilnun,“ segir í tilkynningunni.
Þá er tekið fram að eðlilegt verði að teljast að eigendur þessara ökutækja greiði fyrir afnot af borgarlandi líkt og eigendur annarra ökutækja.