Hæstiréttur þyngdi í dag dóm yfir tveimur mönnum sem fundnir voru sekir um umboðssvik og mútur. Hafði annar maðurinn, Rúnar Már Sigurvinsson, verið þjónustustjóri hjá Isavia og var hann fundinn sekur um að hafa þegið mútur frá Guðbergi Þórhallssyni og hafa í stöðu sinni séð til þess að miðar í bílastæðahlið á vegum Isavia yrðu keyptir af tæknifyrirtæki Guðbergs á hærra verði en í boði hafi verið. Hins vegar var þeim hluta málsins sem varðaði peningaþvætti vísað frá dómi.
Mennirnir hlutu báðir dóm í Landsrétti síðasta haust. Hlaut Rúnar þá 15 mánaða dóm og var hann þyngdur úr 12 mánuðum sem héraðsdómur hafði dæmt. Guðberg hlaut hins vegar níu mánuði í báðum undirréttum. Hæstiréttur þyngdi dóm Rúnars upp í 18 mánuði og dóm Guðbergs í 15 mánuði.
Málið var tekið fyrir í Hæstarétti að beiðni ríkissaksóknara, en aldrei hafði áður reynt á 264. gr. almennra hegningarlaga um mútugreiðslur í einkarekstri. Í málinu reyndi því í fyrsta sinn á beitingu ákvæðisins og var með því sett dómafordæmi.
Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu Landsréttar að sannað þætti, svo ekki yrði véfengt með skynsamlegum rökum, að mennirnir hefðu að frumkvæði Rúnars haft samráð um að hann myndi, í krafti stöðu sinnar hjá Isavia, sjá til þess að Isavia keypti aðgangsmiða í bílastæðahlið félagsins af fyrirtækinu Boðtækni sem var í eigu Guðbergs. Rúnar fékk svo greiðslu frá Boðtækni í gegnum félag sitt, Unique chillfresh Iceland, en það var gert með þremur reikningnum sem ekki byggðust á raunverulegum viðskiptum og segir í dóminum að þeir hafi verið yfirvarp fyrir mútugreiðslur.
Samtals fékk Rúnar millifærðar 3,5 milljónir á reikning Unique chillfresh, en eftirstöðvar ávinnings af brotunum, sem áætlað var í ákærunni að hafi verið að minnsta kosti 4,5 milljónir, urðu eftir hjá félagi Guðbergs.
Landsréttur hafði hins vegar sýknað Guðberg af þeim hluta ákærunnar sem sneri að mútugreiðslu. Var það gert þar sem sýnt þótt að Rúnar hefði átt frumkvæðið að málinu. Hæstiréttur segir hins vegar að enga stoð sé að finna í orðalagi mútulaganna né lögskýringum um að slíkt eigi við og sakfelldi þá báða.
Saksóknari hafði að hluta til fallið frá ákæru um peningaþvætti, en Hæstiréttur vísaði því sem eftir stóð frá dómi þar sem ágallar voru verulegir á ákæru fyrir þann lið.