Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók á móti forseta Finnlands, Sauli Niinistö, og Jenni Haukio, forsetafrú, í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í hádeginu í dag.
Forsætisráðherra og forseti Finnlands ræddu meðal annars gott samband Íslands og Finnlands, norrænt samstarf almennt og stöðuna í Evrópu vegna innrásar Rússa í Úkraínu, að því er segir í tilkynningu.
Finnsku forsetahjónin eru hér á landi í opinberri heimsókn sem hófst í morgun og halda þau af landi brott á föstudag.
Heimsóknin hófst með formlegri móttökuathöfn á Bessastöðum í morgun, heimsókn í Alþingi og Veröld, hús Vigdísar Finnbogadóttur. Á morgun ferðast íslensku forsetahjónin með finnsku sendinefndinni um Vesturland. Farið verður í ísgöngin á Langjökli og forsetahjónum Finnlands gefið færi á að sjá með eigin augum hvernig jökullinn hefur hopað á undanförnum árum.