„Selja aðgang að íbúum Reykjavíkur“

Breki Karlsson kveður markaðsöfl samfélagsins selja aðgang að íbúum Reykjavíkur.
Breki Karlsson kveður markaðsöfl samfélagsins selja aðgang að íbúum Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Aldrei hefur farið fram pólitísk umræða um auglýsingavæðingu almenna rýmisins. Það er eitt að hengja upp plaköt í strætóskýli en þegar komið er LED-skilti þar sem hægt er að skipta um auglýsingar á nokkurra sekúndna fresti og þær eru í gangi allan sólarhringinn erum við að tala um allt annað fyrirbæri.“

Þetta segir Breki Karlsson, íbúi í Hlíðunum í Reykjavík, um væntanlegt auglýsingaskilti sem kveikt hefur úlfúð meðal íbúa eins og greint er frá í Morgunblaðinu í dag.

„Engin umræða hefur farið fram í pólitíkinni um það hvort rétt sé að selja aðgang að íbúum Reykjavíkurborgar á þennan hátt og eins hefur ekkert ákall komið frá borgurum um að aðgangur að þeim sé seldur á þennan hátt,“ heldur Breki áfram.

Kveður hann það einnig verulega athyglisvert að Reykjavíkurborg blandi sér inn í auglýsingamarkað en eins og fram kemur í tilvitnaðri frétt blaðsins er það fyrirtækið Dengsi ehf. sem hefur veg og vanda af væntanlegu auglýsingaskilti og fleiri skiltum víða um borgina. Að mati margra íbúa í Hlíðunum er vandinn þó yfirgripsmeiri en vegurinn og hafa þeir haft uppi mótmæli sem Reykjavíkurborg hefur daufheyrst við. Skiltið skal upp enda liður í samningi við Dengsa ehf.

Laumað fram hjá skipulagi

„Það er ekki eins og það sé ekki nóg af öðrum miðlum sem hægt er að nota til að koma upplýsingum á framfæri,“ segir Breki, „hér komu fram mjög sterk mótmæli við þessum áætlunum, 33 umsagnir fyrir hönd á annað hundrað íbúa því þarna voru nokkur húsfélög sem skiluðu inn sameiginlegum umsögnum sem voru allar á sama veg. Enginn óskar eftir þessu auglýsingaskilti,“ heldur Breki áfram.

Nálægt þeim stað þar sem skiltið stendur vinstra megin á …
Nálægt þeim stað þar sem skiltið stendur vinstra megin á myndinni mun hið nýja auglýsingaskilti rísa. mbl.is/sisi

Hann bendir á deiliskipulag hverfa borgarinnar en samkvæmt því megi ekki setja auglýsingaskilti í íbúðarhverfi. „En deiliskipulagning Klambratúns stendur yfir, henni er ekki lokið, og þannig er verið að svindla þessari staðsetningu inn á Klambratún áður en þeirri vinnu er að fullu lokið. Það er verið að lauma þessu fram hjá skipulagi sem er algjörlega í trássi við reglur um auglýsingaskilti, fyrir utan fordæmisgildið sem þetta gefur,“ segir Breki enn fremur.

Dengsi haldi því fram að Reykjavíkurborg velji staðsetningarnar og fyrirtækinu sé gert að sækja um þær staðsetningar sem embættismenn borgarinnar leggi til, „sem er líka mjög áhugavert, að embættismenn borgarinnar séu farnir að velja auglýsingastaði fyrir einkafyrirtæki. Þeir [Dengsi] halda því líka fram að svona [auglýsinga]standur hafi verið í Flókagötu, en vegna lagningar nýrrar hjólabrautar hafi þeir þurft að taka það ljósaskilti niður,“ segir Breki.

Aðgerðahópur settur á laggirnar

Hins vegar hafi öðru skilti þá verið komið fyrir við strætisvagnaskýli þar skammt frá og auglýsingaskiltum við Klambratún hafi því ekki fækkað sem sé þvert á það sem forsvarsmenn Dengsa haldi fram.

„Nú er kominn aðgerðahópur af stað ef ske kynni að Dengsi ætli að standa við þessa framkvæmd. Ég hitti forsvarsmenn Dengsa á stuttum fundi þar sem þeir lofuðu því að þeir væru í viðræðum við Reykjavíkurborg um aðra staðsetningu og þetta skilti færi ekki upp fyrr en þeim viðræðum væri lokið,“ segir Breki Karlsson að síðustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert