„Vissirðu af vinsældum þínum á Íslandi?“

Guðni Th. Jóhannesson og Sauli Niinistö á málþinginu í dag. …
Guðni Th. Jóhannesson og Sauli Niinistö á málþinginu í dag. Vel fór á með þeim forsetum í spjalli þeirra um ástand Evrópumála og norræna samvinnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sauli Niinistö, forseti Finnlands, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fjölluðu um norræna samvinnu á átakatímum í Veröld – húsi Vigdísar í dag. Bauð Jón Atli Benediktsson háskólarektor gesti og frummælendur velkomna á tímum skálmaldar í Evrópu er hyggi að rótum alþjóðasamfélags, -laga og -sáttmála.

Fram undan væri erfiður vetur sem kæmi til með að reyna til hins ýtrasta á samstöðu Evrópubúa og búast mætti við fróðlegum umræðum á málþinginu. Bauð rektor því næst Auðuni Atlasyni, ráðgjafa forsætisráðherra í utanríkismálum, að taka við stjórn fundarins.

Auðunn bauð frummælendur dagsins, forseta Íslands og Finnlands, velkomna til leiks og kvað vel mætt, fullur salur áheyrenda sæti þingið. „Vissirðu af vinsældum þínum á Íslandi, herra Niinistö?“ spurði fundarstjórinn finnska forsetann.

Alltaf uppselt

„Það fer nú eftir því hvort þetta fólk er hér af fúsum og frjálsum vilja,“ svaraði Finninn, snöggur upp á lagið, og uppskar hlátrasköll af áheyrendabekkjum. Guðni forseti rifjaði þá upp að eitt sinn hefði hann verið í forsæti fyrir hóp sagnfræðiáhugafólks sem haft hefði enn minna húsnæði en sal Veraldar undir sína starfsemi. „Það var hið besta mál því við gátum alltaf sagt að uppselt hefði verið á síðustu samkomu,“ sagði Guðni.

Beindi Auðunn máli sínu því næst að Niinistö og kvað hann hafa sest á þing árið 1987 og þekkti hann því veruleika stjórnmálanna á tímum kalda stríðsins jafnt sem að því loknu. Hvernig myndi hann lýsa atburðum í Úkraínu í samanburði við aðra stóratburði á sinni tíð?

„Þegar við ræðum um kalda stríðið þurfum við að gera því skil hvað kalda stríðið í raun var. Það sem við horfðum upp á frá áttunda og fram á níunda áratuginn var kalt stríð sem risaveldin stýrðu af mikilli nákvæmni. Því var að ljúka þegar ég settist á þing og þá var ekki mikið talað um kalda stríðið, þá töldum við okkur eiga von á nýju lýðræðislegu Rússlandi,“ sagði Niinistö.

Nýja stríðið mun kaldara

Málin hafi hins vegar þróast þannig að eftir 2014 hafi verið farið að tala um nýtt kalt stríð þótt til að byrja með hafi það ekki litið út eins og gamla kalda stríðið. „Nýja stríðið var mun kaldara,“ sagði Niinistö og vísaði þar til þess þegar Rússar sölsuðu undir sig Krímskagann. Þeim atburði hafi í raun mátt líkja við Kúbudeilu Bandaríkjamanna og Sovétmanna í október 1962 en frá þeim þrettán dögum við heljarþröm, 16. til 29. október 1962, eru einmitt 60 ár nú liðin.

Borðalagðir menn. Finnskur ofursti lengst til vinstri og við hlið …
Borðalagðir menn. Finnskur ofursti lengst til vinstri og við hlið hans hinn norski Geir Ove Øby, tengiliður Atlantshafsbandalagsins. Dietrich Becker, sendiherra Þýskalands á Íslandi, er lengst til hægri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fall Sovétríkjanna hefði skapað djúpstæða biturð, reiði og að lokum hatur stjórnenda þess Rússlands sem við tók, stjórnmálamanna á borð við Vladimír Pútín. „Nú sjáum við hvað hatur er,“ sagði Niinistö. Pútín hefði með hugarfari sínu skapað háskalegt ástand í Evrópu og nú væri erfitt að spá um hverjar afleiðingar hinnar áleitnu útþenslustefnu rússneska forsetans yrðu er upp er staðið.

Auðunn spurði þá, og beindi máli sínu til íslenska forsetans, þaulreynds sagnfræðings, hvort Evrópubúar horfðu nú upp á nýtt kalt stríð, jafnvel mun skelfilegra en í þeirri veröld sem var.

„Ef við horfum upp á nýtt kalt stríð verður það ekki í fyrsta sinn sem við gerum það,“ svaraði forseti. Rifjaði hann upp að þegar snemma á níunda áratugnum, á námsárum hans, hefði verið tekið að ræða um nýtt kalt stríð, löngu fyrir fall Berlínarmúrsins.

Ótækt að sætta sig við innrás

„Þetta þarf þó að skoða í ljósi sögunnar. Jú, vissulega erum við á háskalegum tímamótum, en hvenær höfum við ekki verið á háskalegum tímamótum? Við virðumst hafa verið þar býsna oft og þegar við áttum okkur á þeirri staðreynd hjálpar það okkur við að setja hlutina í samhengi [...] Ég er nú sagnfræðingur, meira að segja í launalausu leyfi frá Háskóla Íslands svo ég ætti að geta tjáð mig um þetta,“ sagði Guðni við hlátur viðstaddra.

Íslendingar hafi eins og aðrar þjóðir reynt að halda uppi samtali við Rússa þótt þeir hafi staðið í hernaðarbrölti og ýmsum fjandskap. Svo hafi hlutirnir hreinlega breyst. Engan veginn mætti sætta sig við innrás á borð við þá sem Rússar hefðu gerst sekir um. Finnar væru á leið í Atlantshafsbandalagið og Svíar hefðu horfið frá hlutleysi sínu. Heimsmyndin væri að breytast.

„Við höfum staðið á háskalegum tímamótum áður og það sem við getum lært af því er að samstaða er lykillinn að því að okkar góði málstaður lifi,“ sagði Guðni.

Eigum vini alls staðar

Auðunn beindi talinu því næst að norrænni samvinnu og áhuga Finna á aðild að Atlantshafsbandalaginu. Sagði Niinistö að ótækt væri að láta Pútín ákveða örlög þjóða, almannarómur í Finnlandi hefði breyst og eftir innrásina í Úkraínu væri ákvörðun Finna auðskiljanleg. „Ég hef alltaf verið mikill talsmaður norrænnar samvinnu [...] og ég hef sjaldan fundið betur en nú hvað norrænu þjóðirnar þjappa sér saman er skórinn kreppir. Við eigum vini alls staðar,“ sagði Niinistö og bætti því við að eini gallinn væri að Íslendingar ríghéldu enn í tímamismun gagnvart meginlandinu og hlógu viðstaddir þá þriðja sinni eins og marbendillinn í þjóðsögunni.

Jón Ólafsson prófessor, Ann-Sofie Nielsen Gremaud dósent og Thomas Blomquist, …
Jón Ólafsson prófessor, Ann-Sofie Nielsen Gremaud dósent og Thomas Blomquist, samstarfsráðherra Norðurlanda í ríkisstjórn Finnlands, í pallborðsumræðum eftir að forsetarnir höfðu borið saman bækur sínar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Auðunn gerði þá norræna samvinnu að yrkisefni sínu, væri hún að verða öryggis- og varnarmiðaðri eftir atburði í Úkraínu? Svaraði Guðni því til að norræn samvinna snerist um fjölda annarra hluta, skiptinemasamstarf, frjálsa flutninga fólks til vinnu og annarra athafna. „Þetta strandar eiginlega allt á tungumálinu. Þegar við hittumst á norrænum samkomum erum við [Íslendingar] oft út af fyrir okkur með Finnunum af því að hinar þjóðirnar skilja mál hver annarrar,“ sagði forsetinn en nefndi þó að finnlandssænskan svokallaða væri hið besta mál til að „tale sammen på“ eins og hann orðaði það.

Auðvitað kæmi það til með að hafa sín áhrif þegar allar norrænu þjóðirnar yrðu komnar í hernaðarbandalag saman en ekki mætti gleyma því að þjóðirnar hefðu staðið sig ágætlega í að hafa samstarf á öðrum vettvangi.

Norðurlandasamvinna meira en öryggismál

Niinistö sagði að umræðan um öryggis- og varnarmál yrði ávallt mikilvæg. Eðli manneskjunnar væri slíkt að henni liði vel þegar hún upplifði sig örugga. Guðni tók undir þetta og sagði norrænu ríkin standa sig betur en fjöldi annarra ríkja í samskiptum. Þar þyrfti ekki að einblína á öryggismál, Norðurlandasamvinnan væri annað og meira en sá málaflokkur.

Finnski starfsbróðirinn nefndi norrænt velferðarkerfi og að aðrar þjóðir horfðu til Norðurlandaþjóðanna um margt sem þætti til fyrirmyndar þar. Undir lok viðræðna þeirra forsetanna sagðist Niinistö meira en tilbúinn að eiga samtal við Vladimír Pútín teldi hann að það kæmi málefnum Evrópu til góða á einhvern hátt. „En ég held að það sé ekki raunhæft eins og staða mála er um þessar mundir,“ sagði Finninn.

Lauk þar með viðræðum forseta þessara tveggja lýðvelda á Norðurlöndum, Finnlands og Íslands, undir stjórn Auðuns Atlasonar og við tóku pallborðsumræður. Hægt er að horfa á upptöku af öllu málþinginu með því að smella á hlekkinn sem viðlagður er hér að neðan.

Upptaka af þinginu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert