Að nýta sér neyð barna

Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn hefur marga fjöruna sopið á sviði …
Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn hefur marga fjöruna sopið á sviði löggæslumála, hann hefur sinnt þeim á fjórða tug ára, hérlendis sem erlendis. Karl Steinar ræðir skipulagða glæpastarfsemi og fíkniefnamál við mbl.is í tilefni nýrrar skýrslu ríkislögreglustjóra. mbl.is/Eggert

„Við teljum að efla þurfi löggæslu á landamærum til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi, þú sérð bara tölurnar frá Keflavíkurflugvelli,“ segir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn á alþjóðasviði ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is. Tilefnið er ný skýrsla embættis hans um stöðumat hvað skipulagða glæpastarfsemi snertir árið 2022.

Greinir Karl frá miklum fjölda fíkniefnamála og enn fremur auknum þunga þeirra, íslenskir fíkniefnainnflytjendur hafa að hans mati þróast gegnum tíðina. „Þetta er ekki lengur bara hass sem er að koma frá Kristíaníu í Kaupmannahöfn eins og í gamla daga, við erum að horfa á fólk sem hefur ákveðið að hafa fíkniefnaviðskipti sem sitt lifibrauð,“ segir Karl. En meira um það síðar í viðtalinu.

Yfirlögregluþjónninn leggur þunga áherslu á erlent samstarf, eins og gert er í stöðumatsskýrslunni. „Aldrei hefur eins mikill fjöldi fíkniefnamála og nú komið upp sem stöðvuð eru erlendis í samstarfi okkar við erlenda aðila. Erlenda samstarfið hefur skilað gríðarlega miklu, það eru hvort tveggja Holland og Belgía sem þar eru undir og reyndar fleiri lönd,“ heldur hann áfram.

Þá horfi löggæslufólk á Íslandi upp á gjörbreyttan heim með stórauknum straumi flóttafólks og annarra sem sækjast eftir alþjóðlegri vernd. „Þarna er fólk sem er í viðkvæmri stöðu. Við erum í þessari skýrslu í raun bara að taka undir sjónarmið sem hafa komið fram, bæði frá ÖSE [Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu], Europol og fleirum. Hættan er mikil á að brotamenn séu að nýta sér það og þess vegna skiptir það svo miklu máli að yfirvöld eigi þess kost að nálgast fólk og aðstoða þá sem það þurfa. Þarna þarf ákveðin greining og samstarf að eiga sér stað,“ segir Karl.

Selja börn sín í vændi

Nefnir hann fjölda barna sem eru á flótta í Evrópu og vísar í skýrslu evrópsku löggæslustofnunarinnar Europol um hvernig brotamenn nýti sér neyð barna. Blaðamaður hefur lesið skýrsluna og hún er lögð við þetta viðtal í tengli hér að neðan. Er þar fjallað um hvernig jafnvel foreldrar selji börn sín í vændi eða neyði þau út í betl eða afbrotastarfsemi til að afla sér fjár. Sú lesning er allt annað en fögur en engu að síður raunsönn lýsing á því sem er að gerast nánast í túninu heima, í Evrópu.

„Við höfum áhyggjur af miklum fjölda barna [á flótta] í Evrópu og þetta þarf að skoða, til dæmis hverjir eru fylgdarmenn þessara barna. Þetta gerist líka hér, við sjáum það,“ segir Karl með þungri áherslu.

Karl Steinar í forgrunni en að baki honum má sjá …
Karl Steinar í forgrunni en að baki honum má sjá Guðmund Inga Þórodsson, formann Afstöðu, félags fanga. mbl.is/Hari

Þá hafi lögregla á Íslandi fjölda ástæðna til að hafa áhyggjur af komandi vikum og mánuðum. „Eins og við erum að lesa í stöðuna getur orðið enn meiri aukning en við höfum séð núna, það er að koma vetur, það er búið að lama vatn og rafmagn að miklu leyti í Evrópu. Það getur vel orðið til þess að fleiri leggi í þetta ferðalag sem þeir annars hefðu ekki gert. Við viljum beina athygli lögreglu inn á þennan þátt, að rannsaka mál þar sem grunur leikur á mansali. Þetta eru mjög flókin og erfið mál og við höfum kannski ekki verið að ná neitt rosalegum árangri í þeim – og ekki önnur lönd heldur. En hér á landi hefur margt lagast, til dæmis í lagaumhverfi, og við höfum verið að fá sakfellingar í málum á þessum vettvangi,“ segir Karl Steinar sem býr yfir umfangsmikilli reynslu og þekkingu á löggæslumálum er hann hefur starfað við í á fjórða áratug.

Nýr raunveruleiki?

Í stöðumatsskýrslunni er talað um Íslendinga erlendis sem stjórna hópum sem starfa við innflutning og dreifingu fíkniefna á Íslandi. Er það nýr raunveruleiki?

„Við höfum svo sem aðeins talað um þetta áður en þessir hópar sem starfa hér á landi eru blandaðir, þeir eru af mismunandi þjóðerni og hjá sumum þeirra er íslenski markaðurinn bara hluti af markaðskerfinu. Þú ert í Noregi, Noregur er líka inni í þessu og önnur Norðurlönd. Þeir eru að starfa mun víðar en á Íslandi og þetta tengist til dæmis þessum dómi sem var að falla áðan sem er geysilega þungur [saltdreifaramálið svokallaða, 10 og 12 ára dómar]. Þessi dómur staðfestir þá nálgun sem við höfum haft gagnvart einum þessara hópa og þetta eru mjög þungar refsingar,“ segir Karl.

Telur hann refsistefnu í fíkniefnamálum skila sér, koma menn breyttir og bættir út úr fangelsum eftir tólf ára dóma fyrir fíkniefnainnflutning?

„Ég treysti mér ekki nákvæmlega til að segja til um það, en með svona dómum er verið að lama brotastarfsemi. Hverjar afleiðingarnar af því eru...ja, til dæmis er búið að stöðva þá fjármuni sem þeir ætluðu sér að ná út úr þessari brotastarfsemi,“ segir Karl Steinar.

Þessir fjármunir, oft tugir, jafnvel hundruð, milljóna, hafi áhrif á aðra og löglega starfsemi í litlu hagkerfi á borð við Ísland, þar sé verið að skemma fyrir fyrirtækjum sem fari að lögum og reglum en séu engu að síður nýtt sem peningaþvottavélar.

Mörg ljón eru í vegi íslenskrar lögreglu, einkum um þessar …
Mörg ljón eru í vegi íslenskrar lögreglu, einkum um þessar mundir er umferð flóttamanna um Evrópu margfaldast. Hugsa margir sér gott til glóðarinnar að misnota flóttafólk, fullorðið jafnt sem börn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Og við verðum líka að horfa til þess að við erum að hindra að mörg hundruð kíló af fíkniefnum komist á markaðinn á Íslandi. Það eru svo margir mismunandi þættir sem eru þarna undir. Hvort einstaklingarnir sjálfir sjái að sér, um það verða aðrir sérfræðingar að tjá sig.“

Umfang, skipulagning og net

Sem fyrr segir hefur Karl Steinar starfað við löggæslu á fjórða tug ára. Ef við lítum til baka til mála á borð við stóra fíkniefnamálið svokallaða árið 1999, máls þar sem menn með 200.000 krónur uppgefnar í mánaðarlaun óku um á BMW 750-bifreiðum og keyptu antíkhúsgögn í gámatali í skjóli skjótfengins gróða, hvað hefur þá í raun breyst á 23 árum?

„Það er umfangið, skipulagningin og netið þeirra, það sem lagt er í brotastarfsemina. Umfangið hefur aukist svo gríðarlega,“ svarar Karl Steinar. Málin hafi verið einfaldari áður fyrr, fjármunirnir sem nú séu lagðir í fíkniefnainnflutning hafi margfaldast.

Nota Íslendingar þá meiri fíkniefni eða eykst eftirspurnin með meira framboði af fíkniefnum á Íslandi?

„Báðir þessir þættir koma þar við sögu. Okkur hefur fjölgað og neytendum hefur fjölgað. Við getum heldur ekki horft fram hjá því að mun fleiri heimsækja landið. Einhverjir þeirra eru líka neytendur án þess að við getum fullyrt nokkuð um það. Fíkniefnaneysla tengist skemmtanahaldi og hluti þeirra sem sækja landið heim er spenntur fyrir því svo ég held að þarna komi margir þættir við sögu,“ svarar Karl Steinar.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir er ríkislögreglustjóri. Innan vébanda hennar embættis starfar …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir er ríkislögreglustjóri. Innan vébanda hennar embættis starfar greiningardeild sem greinir meðal annars umfang skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í framhaldinu nefnir hann tímabil breytinga. Hass frá Kaupmannahöfn hafi verið allsráðandi hér áður fyrr. Í dag sé staðan hins vegar sú að amfetamínverksmiðjur og umfangsmiklar kannabisræktanir séu starfræktar á Íslandi. „Svo megum við ekki gleyma umfangsmiklum innflutningi á kókaíni sem menn leggja mikið á sig til að koma fram hjá yfirvöldum og inn,“ segir Karl Steinar og kveður kókaínneyslu á Íslandi hafa aukist verulega.

Klóakið fullt af lyfjum

Máli sínu til stuðnings bendir yfirlögregluþjónninn á rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið á afrennsli salerna hvort tveggja á Íslandi og meginlandi Evrópu. Úrgangsefni íbúanna séu einfaldlega full af dópi. „Þetta eru mjög áhugaverðar niðurstöður,“ segir Karl og vísar í erlendar sem innlendar rannsóknir. Getur blaðamaður þar bent á skýrslur Evrópsku rannsóknarmiðstöðvarinnar um eiturlyf og misnotkun þeirra, EMCDDA, European Monitoring Centre for Drugs and Drug Addiction, þar sem fjallað hefur verið um lyf í afrennsli undanfarin ár. Er þar lítill hörgull á. Hlekk á nýjustu skýrsluna er að finna neðanmáls.

Við höldum áfram með skýrslu ríkislögreglustjóra. Kemur þar fram að að mat embættisins sé að fjárfesta þurfi í búnaði til að sinna upplýsingamiðaðri löggæslu og tryggja skilvirkni. Er þar átt við hinar svokölluðu forvirku rannsóknarheimildir sem upp á síðkastið hafa verið þrætuepli?

„Nei, þarna erum við fyrst og fremst að tala um rannsóknarþáttinn í skipulagðri brotastarfsemi,“ svarar Karl Steinar, „flækjustigið okkar hefur aukist mjög mikið, við þurfum að vinna úr mjög miklu magni af gögnum og upplýsingum og það skiptir mjög miklu máli að við getum nýtt okkur tæknina þar,“ heldur hann áfram.

Sérsveit ríkislögreglustjóra er fertug um þessar mundir. Hennar hefur ekki …
Sérsveit ríkislögreglustjóra er fertug um þessar mundir. Hennar hefur ekki orðið minni þörf síðustu ár eins og dæmin sýna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þar sé mannafli ekki það eina heldur einnig greiningarvinna sem miklu máli skipti. „Þessi þáttur skiptir mjög miklu máli í starfsemi löggæslustofnana, hvort sem það er lögregla, tollur eða aðrir. Ég myndi segja að löggæslustofnanir þyrftu núna í dag að horfa mikið til sérfræðiþekkingar sem styður við hin klassísku löggæslustörf,“ segir Karl.

Glíma við nákvæmlega sömu mál

Hvernig telur Karl Steinar íslenska lögreglu í stakk búna eftir þær umfangsmiklu breytingar sem orðið hafa á raunveruleika íslenskra og erlendra brotamanna á Íslandi, og í raun íslensku þjóðfélagi. Hefur lögreglan allt sem hún þarfnast til að sinna starfi sínu svo vel megi vera?

„Þetta hefur batnað mikið og vel verið gert að mörgu leyti, en til að ná árangri þurfum við að halda áfram á sömu braut. Við þurfum að styðja við lögregluna á hverjum tíma. Löggæsla og yfirvöld á Íslandi eru að glíma við nákvæmlega sömu mál og Evrópa og Norðurlöndin eru að glíma við þótt það sé kannski á minni skala hjá okkur,“ segir Karl Steinar af þunga, þarna sé í raun ekkert val á ferð, löggæsla þurfi alltaf að vera starfhæf.

Vissulega er það rétt. En hvernig eru skýrslur á borð við þá sem fjallar um skipulagða brotastarfsemi unnar. Hvaðan fær lögreglan þessar upplýsingar?

„Fyrir skýrsluna í ár köllum við sérfræðinga okkar og aðra sérfræðinga í hverjum málaflokki saman til þess að gera stöðumat á því sem þetta fólk sér og skynjar og kemur einnig fram í erlenda samstarfinu. Út frá því metum við stöðuna, grunnurinn að störfum lögreglu er upplýsingar og lögreglan aflar sér upplýsinga með þeim leiðum sem tækar eru. Við erum með rýnihópa á ákveðnum sviðum og þeir gefa okkur stöðuna á sex mánaða fresti,“ segir Karl.

Sú starfsemi sé ný af nálinni en lögregla telji sig fyrir vikið búa að sterkara mati núna en oft áður.

Geysiöflugt lið

Hvað með alþjóðlegt samstarf, hefur það aukist síðustu ár?

„Já, ekki hefur það bara aukist heldur hefur það orðið mikilvægara og mikilvægara. Segja má að ekkert mál varðandi skipulagða glæpastarfsemi hafi ekki erlendar tengingar. Þetta er kannski stór fullyrðing en ég myndi segja að hún væri sönn í 99,9 prósentum tilvika,“ segir Karl Steinar.

Norðurlandasamstarfið og Europol séu þar efst á baugi en eins alþjóðalögreglan Interpol er seilast þarf til landa utan Evrópu.

Fíknilyf streyma til landsins sem aldrei fyrr og bendir Karl …
Fíknilyf streyma til landsins sem aldrei fyrr og bendir Karl Steinar á að hvort tveggja fjölgi íbúum landsins auk þess sem hingað komi ferðamenn sem sumir hverjir séu neytendur enda misjafn sauður í mörgu fé svo sem altalað er. mbl.is/Kristinn Ingvarsson


„Við erum með geysilega öflugt lið,“ segir Karl hispurslaust, inntur eftir því hvar íslensk lögregla standi í samanburði við til dæmis fíkniefnalögreglu í Hollandi þar sem menn og konur kalla ekki allt ömmu sína í greiningarvinnu, svo sem á Schiphol-flugvelli og víðar þar sem nær daglegt brauð er að fólk sé gripið með stútfullar ferðatöskur af kókaíni eða hafi æft sig á fuglseggjum í Súrínam og víðar til að gleypa kókaínpakkningar.

„Við höfum ákveðna kosti. Við erum fámenn og við þykjum mjög góð í ákvarðanatöku, við erum snögg í ákvarðanatöku og við höfum mjög einfalt kerfi. Okkur hefur gengið mjög vel í samstarfi við erlend lið og þar eigum við mjög góð tækifæri eins og fram hefur komið að undanförnu.“ Áskoranir íslenskrar lögreglu séu hins vegar geysimiklar.

Þröngt sniðinn stakkur

Við komum aftur að forvirku rannsóknaraðferðunum, vinsælu bitbeini en réttlætanlegu umræðuefni. Þarfnast lögregla þeirra?

„Við gerum skýran greinarmun þarna, skipulögð brotastarfsemi er allt annað en hryðjuverk og við höfum aldrei verið að tala um þetta varðandi skipulagða brotastarfsemi. Hryðjuverk og öryggi ríkisins er allt annað mál, við höfum aldrei verið að tala um þetta í skipulögðu starfseminni,“ segir Karl ákveðinn og blaðamaður þakkar almættinu fyrir að vera frekar óskipulagður.

„Við erum á pari við Norðurlöndin og berum okkur saman við þau, grundvallarlögin okkar eru dönsk og norsk og við horfum til þess að eiga kannski rýmri möguleika þegar við rannsökum skipulagða glæpastarfsemi. Tíminn er til dæmis svakalega erfiður hjá okkur, við erum til dæmis með mjög erfiðan tímaramma varðandi gæsluvarðhald og þessa 24 tíma,“ segir Steinar og kemur þar inn á mál sem hann ræddi fyrr í vikunni við allsherjarnefnd Alþingis.

Schiphol-flugvöllurinn í Amsterdam hefur gjarnan komið við sögu í fíkniefnamálum …
Schiphol-flugvöllurinn í Amsterdam hefur gjarnan komið við sögu í fíkniefnamálum enda Holland ein helsta nöf fíkniefnaflutninga um meginland Evrópu. STR

Lögreglu þyki mikilvægt að ræða þessi mál með breytingar í huga, henni sé þröngt sniðinn stakkur. „Það er mikið skref og inngrip í líf einstaklings að vera grunaður um alvarlegt brot. Okkar skylda er að komast að hinu sanna, við erum kannski með þig í haldi en við þekkjum ekki til þín. Við getum ekki útilokað hvort þú eigir hlut að máli þegar mikið er undir. Þá neyðumst við til að grípa til vissra ráðstafana. Svo kannski sleppum við viðkomandi úr gæsluvarðhaldi eftir tvo daga ef við áttum okkur á að við hann á ekki aðkomu að þessu með saknæmum hætti,“ segir Karl Steinar og fer ekki í grafgötur með að hann óski eftir rýmri tímaramma á vettvangi gæsluvarðhaldsmála.

Hlunnfara fólk með ýmsum hætti

Líða tekur að lokum viðtals. Telur Karl Steinar íslenska afbrotamenn hafa breyst á síðustu áratugum, þróast jafnvel?

„Já, núna er margt fólk komið fram sem hefur ákveðið að leggja brotastarfsemi fyrir sig og hafa hana sem lifibrauð, hlunnfara fólk með ýmsum hætti,“ segir Karl. „Margir eru á margvíslegum sviðum, þetta eru ekki bara fíkniefni, starfsemi margra snýst um að misnota fólk, smygla fólki og stunda mansal, þar eru gríðarlegir fjármunir og þess vegna hafa svo margir brotahópar verið að horfa þangað. Þess vegna viljum við að lögregla horfi enn meira í þá átt en gert hefur verið,“ svarar yfirlögregluþjónninn.

Telur hann rétt að fjölda fólks vanti í íslenskt lögreglulið?

„Það hefur skýrt komið fram hjá okkur að við höfum aldrei náð okkur eftir bankahrunið 2008, við erum kannski 800 í dag, kannski þúsund starfsmenn með öllu, þar mætti fjölga um 200 manns hugsa ég,“ svarar Karl.

Er það þá fjárskortur sem setur lögreglunni stólinn fyrir dyrnar eða þarf ef til vill að leggja meiri áherslu á að laða fólk að lögreglustörfum?

Karl Steinar þarf fáar afsakanir til að vera í þungum …
Karl Steinar þarf fáar afsakanir til að vera í þungum þönkum. Ísland færist æ nær innsta hring alþjóðlegra fíkniefnaviðskipta, mansals og annarrar skipulagðrar glæpastarfsemi. Enn telur yfirlögregluþjónninn þó að íslensk löggæsla standi vel að vígi miðað við allt og allt. mbl.is/Eggert

„Það er hvort tveggja, nú hefur orðið breyting á stéttinni. Við höfum þurft aukinn fjölda sérfræðinga en það skiptir mjög miklu máli að starfið sé eftirsótt. Það hefur gengið ágætlega hjá okkur að fá fólk til að mennta sig og koma í lögregluliðin, miklu máli skiptir að hlúa vel að lögreglunni, lögregla skiptir mjög miklu máli í öryggislegu tilliti lands og þjóðar, þarna þarf gott fólk að veljast inn,“ segir Karl með slíkum sannfæringarkrafti að blaðamaður hefði áreiðanlega sótt um í lögreglunni væri hann ekki að verða fimmtugur bráðum.

Háskólastigið ekki án erfiðleika

Lokaspurning. Hvað finnst Karli um lögreglunám á háskólastigi miðað við gamla Lögregluskóla ríkisins?

„Það var alveg þörf á því að lyfta skólanum upp á háskólastig. Sú leið var farin, en hún var ekkert án erfiðleika,“ svarar viðmælandi. Margt hafi áunnist þótt námið sé kannski ekki komið á besta stað enn þá. Námið hafi verið að þróast í rétta átt síðustu misseri eftir erfið fyrstu ár. „En skrefið upp á háskólastig var alveg hárrétt,“ segir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn og löggæslumaður til áratuga, að lokum í fróðlegu samtali.

Skýrsla Europol

Skýrsla EMCDDA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert