„Við vonumst til að geta boðið upp á bóluefni með víðtækari vörn gegn HPV-veirunni á næsta ári, en slíkt bóluefni gefur breiðvirkari vörn gegn HPV-veirunni og vinnur á fleiri tegundum veirunnar en bóluefnið sem verið er að nota núna,“ segir Guðrún Aspelund sóttvarnarlæknir hjá embætti Landlæknis í samtali við mbl.is.
Fréttablaðið greindi frá því í dag að ekki hafi verið boðið upp á Gardasil 9 hér á landi í almennri bólusetningu, en bóluefnið veiti 90% vörn gegn níu tegundum HPV veirunnar. Þess í stað sé boðið upp á Cervarix sem sé slakari kostur, enda veiti það 70% vörn gegn tveimur afbrigðum HPV-veirunnar.
Guðrún segir að bóluefni séu keypt eftir útboð. Útboð er lögbundið ferli opinberra stofnana þegar verið er að kaupa bóluefni en einnig ýmsa aðra vöru og þjónustu miðað við kostnaðaráætlun. „Við getum ekki bara ákveðið hvaða bóluefni við viljum kaupa. Það þarf að gera útboð og þá koma ýmis tilboð sem eru svo metin út frá kostnaði og ávinningi og á þeim forsendum er tekin ákvörðun um kaupin. Þetta er hægt að kynna sér t.d. á vef Ríkiskaupa og í lögum um opinber innkaup.“
Guðrún segir að í síðasta útboði hafi umrætt bóluefni ekki staðið þeim til boð og hafi verið gerður samningur um annað bóluefni. „Núna verður útboð væntanlega í nóvember eða desember og þá kemur í ljós hvaða bóluefni koma þar inn, en það er mikill vilji til að bjóða útvíkkað bóluefni núna. Ef það gengur allt eftir þá munum við geta boðið upp á nýtt bóluefni strax á næsta ári.“
Talsverð umræða hefur verið um þessi lyf gegn HPV-veirunni í fjölmiðlum á þessu ári. Guðrún er spurð hvort haft hafi verið samband við Landlæknisembættis vegna þess. „Það eru einhverjir sem hafa haft samband,“ segir hún og þeir hafi haft þá skoðun að þetta lyf ætti að vera í boði vegna þess að það veiti betri vörn en önnur lyf.
„Þetta lyf er dýrara en það veitir víðtækari vörn gegn fleiri afbrigðum HPV-veirunnar. Það veitir vörn gegn krabbameini, eins og hitt bóluefnið sem er í notkun. Breiðvirkara bóluefnið veitir einnig vörn gegn þeim tegundum sem valdi vörtum sem geta verið afleiðing HPV sýkingar, sem bóluefnið sem er í notkun gerir ekki.“
Guðrún segir mikilvægt að líta til lengri tíma þegar metin eru svona bóluefni, bæði hvað varðar virkni á sjúkdóma en líka þegar fjárhagslegi þátturinn er skoðaður. „Það er hugsanlega meiri ávinningur af útvíkkuðu bóluefni ef við litum til fækkun krabbameina, sem og í sparnaði í heilbrigðisþjónustu við eftirlit og annan kostnað vegna sjúkdóma, bæði krabbameins og vörtusjúkdóms. En vissulega tekur það mörg ár að koma fram.“