Mál 12 ára stúlku sem varð fyrir grófu einelti og reyndi í kjölfarið að fremja sjálfsvíg var skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fyrr í vikunni.
Móðir stúlkunnar greindi frá því í viðtali í gær að lögreglan sé að skoða málið.
Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir lögregluna hafa komið að málinu en veit ekki til þess að það verði unnið áfram hjá henni, að minnsta kosti ekki eins og staðan er núna. Það sé fyrst og fremst skólans að vinna málið áfram.
Hann segir starfsmann sem sinnir forvörnum starfa hjá lögreglunni og vinnur hann náið með skólum í málum sem þessu.
„Það er ömurlegt að sjá hvað getur verið mikil grimmd í svona hóp. Þetta er alveg hræðilegt,“ segir Sævar um málið. „Það er ótrúlegt að börn skuli tala svona og senda svona skilaboð,“ bætir hann við og á við skilaboð sem stúlkan sem varð fyrir eineltinu las upp í sjónvarpsviðtali við RÚV í gær.