Formaður foreldrafélags Hraunvallaskóla segir foreldrum nemenda brugðið yfir fregnum af grófu einelti sem hefur viðgengist í skólanum í meira en ár, og vilja þeir grípa til aðgerða strax. Ástandið megi ekki vera svona deginum lengur.
Mikilvægt sé að endurskoða með reglulegum hætti áætlanir vegna eineltis en vísbendingar séu um að kerfið hafi brugðist í þessu máli.
„Það er eitthvað sem við þurfum að horfast í augu við að við þurfum að gera betur í þessum málum. Ekki bara skólinn heldur við foreldrar og samfélagið allt. Þetta á náttúrulega ekki að líðast,“ segir Stefán Már Gunnlaugsson, formaður foreldrafélags Hraunvallaskóla.
Stjórn félagsins mun funda með skólastjórnendum síðar í dag þar sem farið verður yfir stöðuna og næstu skref.
Sædís Hrönn Samúelsdóttir, móður tólf ára stúlku í Hraunvallaskóla, kom fram í fjölmiðlum í gær og upplýsti um að dóttir hennar væri á spítala vegna sjálfsvígstilraunar eftir langvarandi einelti sem hún hefur orðið fyrir.
Sædís Hrönn sagði um 30 börn hafa tekið þátt í að leggja dóttur hennar í einelti og birti hún skjáskot af andstyggilegum skilaboðum sem stúlkan hefur fengið send. Þar var hún m.a. hvött til að taka eigið líf. Þá hafa verið birt fleiri en eitt myndskeið þar sem börn lemja og sparka í stúlkuna þar sem hún liggur niðri.
Stúlkan hefur ekki mætt til skóla í hálfan mánuð núna en komið hefur til tals að námsráðgjafi ræði við hana einu sinni á dag og kennari einu sinni í viku, að sögn móður hennar.
Að sögn Stefáns Más hafði foreldrafélagið ekki fengið veður af þessu máli fyrr en það kom fram í fjölmiðlum í gær og segir hann fréttirnar hafa komið sér í opna skjöldu.
„Við erum slegin yfir því að þetta mál skyldi hafa komið upp. Þetta er að sjálfsögðu einu máli of mikið og er mjög alvarlegt eineltismál sem þarna er verið að lýsa sem við höfum áhyggjur af,“ segir Stefán Már.
„Við munum skoða alla fleti. Við munum vera í sambandi við skólastjórnendur og yfirvöld, við höfum verið í sambandi við Heimili og skóla. Við erum að leggja okkar af mörkum eins og við getum að vinna að góðri lausn á þessu máli,“ bætir hann við.
Fram hefur komið að börnin sem hafa tekið þátt í eineltinu komi ekki eingöngu úr skólanum sem stúlkan gengur í. Aðspurður segir Stefán Már foreldrafélagið ekki hafa óskað eftir fundi við aðra grunnskóla vegna málsins en það gæti þó komið til þess.
„Vandamálið við einelti á samfélagsmiðlunum er að það teygir anga sína víða og vissulega þurfum við að skoða það. Þetta er hvatning fyrir alla foreldra að ræða við börnin sín um samskipti og hvernig við komum fram af virðingu.“