Söfnun sem Ingibjörg Gróa, frænka Ísabellu Vonar, hratt af stað í gær hefur skilað þeim árangri að Ísabella er, ásamt móður sinni, á leið til Flórída að hitta frændfólk sitt og eldri systur.
Ísabella, sem hefur sætt hrottalegu einelti af hálfu jafnaldra sinna í rúmt ár, reyndi í fyrradag að svipta sig lífi. Hún hefur ekki þorað að mæta í skólann vegna eineltisins svo vikum skiptir.
„Mér leið eins og allir yrðu glaðir ef ég myndi gera það. Það eru svo margir búnir að segja mér það,“ sagði Ísabella í kvöldfréttum RÚV.
Móðir hennar, Sædís Hrönn Samúelsdóttir, sagðist í gær upplifa vonleysi vegna ástandsins, en hún hefur lengi reynt ýmis úrræði án árangurs.
Ingibjörg Gróa segist himinlifandi yfir velvilja landsmanna. „Þetta er svo fallegt að sjá hvað íslenska þjóðin stendur saman þegar eitthvað [bjátar á],“ segir hún í samtali við mbl.is.
Bætir hún við að bæði hún og mæðgurnar hafi fengið holskeflu skilaboða frá fólki sem vilji að hún viti að það standi við bakið á Ísabellu Von. „Bara virkilega fallegt.“
Segist Ingibjörg hafa hitt Ísabellu áðan og fundið hvað það gerði henni gott.
Hafnfirskt fyrirtæki ákvað að borga flug þeirra mæðgna og framlög frá öðrum hugulsömum einstaklingum dugir fyrir gistingu og ýmis konar afþreyingu, segir Ingibjörg í færslu sem hún deildi á Facebook.
„Þakklæti er ekki nægilega stórt orð til að lýsa seinasta sólarhring,“ segir í færslunni. „Þakklátust er ég fyrir að Ísabella Von sé enn hér hjá okkur og sjái alla ástina og kærleikann sem umvefur hana þessa stundina.“
Enn er hægt að styðja mæðgurnar:
Kt : 100295-3269Rkn: 544-05-422264
Upprunalega færsla Ingibjargar frá því í gærkvöldi, þar sem söfnuninni var hrundið af stað:
Ef þú upplifir vanlíðan, sjálfsvígshugsanir eða hefur áhyggjur af einhverjum í kringum þig getur þú leitað til Hjálparsíma Rauða krossins 1717 (opið allan sólarhringinn), Píeta-samtakanna í síma 552 2218 eða bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans í síma 543 4050.