Alls hefur fundist mygla í 24 grunn- og leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Þar af eru 14 leikskólar og 10 grunnskólar. Þá hafa fimm skólar þurft að flytja starfsemi sína annað og fljótlega bætast tveir við.
Flest eru myglutilfellin í Laugardalnum, alls sjö. Þá eru slíkar skemmdir í fimm skólum í Vesturbæ, fjórum í Háleitis- og Bústaðahverfi og fjórum í Árbæ og Norðlingaholti. Loks eru þrír skólar í Miðborg og einn í Breiðholti.
Þetta kemur fram í samantekt frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar um staðfest tilfelli myglu í grunn- og leikskólum borgarinnar.
Í skriflegu svari frá skóla- og frístundasviði við fyrirspurn Morgunblaðsins eru taldir upp fimm skólar sem eru lokaðir, í heild eða að hluta til: Hagaskóli, Laugarnesskóli, Sunnuás, Grandaborg og Nóaborg. Þá munu tveir skólar, Vogaskóli og leikskólinn Árborg, bætast við á næstu vikum vegna framkvæmda sem þar munu hefjast.
Börn í skólunum sjö þurfa mörg hver að ferðast langar vegalengdir til þess að sækja skóla. Þá hafa tveir skólar þurft að skipta starfsemi sinni í þrennt, Hagaskóli og Grandaborg.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.