Nýr umferðarvefur býður fjölda möguleika

Nýi vefurinn, umferdin.is, er tæknilegt rothögg að sögn upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar.
Nýi vefurinn, umferdin.is, er tæknilegt rothögg að sögn upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar. Ljósmynd/Vegagerðin

„Þetta er gríðarleg breyting, sérstaklega á færðarkortinu sem nú er orðið þysjanlegt,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is um nýjan umferðarvef Vegagerðarinnar, umferdin.is, sem hleypt var af stokkunum í morgun.

Segir G. Pétur nýja vefinn mun snjallsímavænni en forverann. „Svo höfum við breytt litakóðunum, nú eru hálkublettir bláir, almenn hálka dökkblá og flughált er fjólublátt,“ útskýrir hann.

Enn fremur sé nýi vefurinn aðgengilegri gegnum venjulegar tölvur, þar komi hliðardálkur með upplýsingum sem áður þurfti músarsmell til að kalla fram. „Þar eru til dæmis tíst um umferðina á því svæði og aðgangur að vefmyndavélum Vegagerðarinnar. Nú er hægt að smella á vegkafla og fá þá aðgang að næstu vefmyndavél á því svæði,“ heldur hann áfram.

Breytingin mikil vinna

G. Pétur segir nýja vefinn auk þess mun vænni flutningsaðilum sem kanna þurfi þungatakmarkanir á vegum. Nú sé hægt að smella á einn hnapp til að sjá þungatakmarkanir á öllu landinu, nýi vefurinn sé einfaldari, aðgengilegri og notendavænni.

Hversu mikil vinna liggur á bak við svo umfangsmikinn upplýsingavef sem þennan, er starfsmaður eða jafnvel starfsmenn yfir honum allan daginn?

„Ja, það var gríðarleg vinna að breyta honum get ég sagt þér,“ svarar upplýsingafulltrúinn. Upplýsingaflæðið sé hins vegar að mestu leyti sjálfvirkt, „þetta eru þær upplýsingar sem fólkið okkar er að safna saman um allt land, færðarupplýsingarnar til dæmis og svo upplýsingar frá öllum veðurstofum og umferðargreinum, þetta kemur allt sjálfvirkt,“ heldur hann áfram.

Hve mikil umferð skyldi þá vera um vef sem fjallar um umferð?

„Ég er ekki með neinar tölur svona í símtali en um leið og kemur vont veður margfaldast umferðin um vefinn, þá er ég að tala um tugi þúsunda heimsókna, um leið og eitthvað gerist í veðri eða hvað umferð snertir fer fólk inn á þennan vef,“ segir G. Pétur.

Samevrópskur samskiptastaðall

Nýi vefurinn var kynntur á morgunfundi Vegagerðarinnar í morgun og fór Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs, yfir helstu eiginleika nýs vefjar en Helgi Gunnarsson, verkfræðingur í hafnadeild Vegagerðarinnar, kynnti við sama tækifæri vefinn sjólag.is sem verið hefur í notkun um stund.

„Nýi vefurinn, umferdin.is, mun leysa af hólmi hið vel þekkta færðarkort Vegagerðarinnar þar sem vegfarendur hafa kynnt sér aðstæður á vegakerfinu hingað til. Nýi vefurinn er mun nútímalegri, færðarkortið er t.d. þysjanlegt, og mun þægilegra í notkun í snjalltækjum. Nýr vefur mun einnig gefa tækifæri til frekari framþróunar,“ segir í fréttatilkynningu.

Þá ræddi Robin Tenhagen, fulltrúi leiðsögutækjafyrirtækisins TomTom, um reynsluna af því að nýta vefþjónustur Vegagerðarinnar en þær eru nú aðgengilegar í DATEXII, samevrópskum samskiptastaðli sem tekinn var í notkun nýlega til að einfalda erlendum leiðsögutækjafyrirtækjum að birta færðarupplýsingar og aðrar upplýsingar um ástand íslenska vegakerfisins í rauntíma.

Hér má skoða nýja vefinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert