Ósætti meðal stjórnarflokkanna kann að krauma meira upp á yfirborðið í meiri mæli á þessu þingi en verið hefur til þessa, nú þegar heimsfaraldurinn er ekki lengur til þess að sameina þá.
Þetta segja stjórnarandstöðuþingmennirnir Bergþór Ólafson frá Miðflokki og Sigmar Guðmundsson frá Viðreisn í viðtali um stjórnmálaviðhorfið í upphafi þingvetrar, sem birt er í Dagmálum, streymi Morgunblaðsins á netinu sem opið er öllum áskrifendum.
„Við sjáum það að ráðherrar eru að vaða í sjónarmið annarra flokka,“ segir Bergþór. „Það er sama hvort það eru Vinstri grænir í tengslum við framtíðarorkuöflun, um útlendingamálin er augljós mjög mikill ágreiningur innan stjórnarflokkana og margt annað. Ég er hræddur um að fyrir pólitíska áhugamenn geti þingveturinn orðið áhugaverður, en það er ekki víst að það verði allt til bóta fyrir land og þjóð.“
Sigmar Guðmundsson tekur í svipaðan streng. „Bara það að fást við kjaramálin í ríkisstjórn, sem spannar allt litrófið, það er verulega flókið mál því það má búast við því að í kringum kjarasamningana verulegur útgjaldaþrýstingur á ríkisstjórnina. Það er miklu verra fyrir Vinstrigræn en sjálfstæðismenn að vera á bremsunni.“
Bergþór minnir á að útgjaldaaukningin hafi verið mikil undanfarin ár. Nú þegar erfiðleikar steðja að á efnahagssviðinu utan úr löndum kynni að vera lag fyrir ríkisstjórnina tol þess að þjappa sér saman líkt og gerðist í heimsfaraldrinum, en hann er vantrúaður á að það gerist.
„Sjónarmið stjórnarflokkanna eru svo ólík gagnvart lausnunum, sem flokkarnor telja skynsamslegar við þeim verkefnum sem framundan er. Ég er hræddur um að þetta pólitíska ósætti eigi eftir að grassera hressilega.“