Skjálftahrinan sem hófst 8. september úti fyrir Norðurlandi er ekki enn lokið en tæplega 150 skjálftar komu fram á mælum í grennd við Grímsey í gær. Þá hafa 20 skjálftar orðið á svæðinu frá miðnætti, að sögn náttúruvársérfræðings.
Tveir skjálftar yfir þremur að stærð riðu yfir fyrir hádegi í gærmorgun um 15 km norður af eyjunni. Sá stærri varð um klukkan hálfellefu. Hann var 3,8 að stærð og voru upptök hans á 13,9 km dýpi. Laust fyrir hádegi í gær kom síðan skjálfti af stærðinni 3,3 og voru upptök hans á 14,2 km dýpi.
Í lok september aflýsti ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinunnar.
Kristín Elísa Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur, hjá Veðurstofu Íslands, segir að verulega hafi dregið úr skjálftahrinunni sem hófst í september en hún komi þó enn fram í hviðum. Þá sé jákvætt að jarðskjálftarnir séu fjær landinu en þeir sem urðu við upphaf hrinunnar.
Skjálftarnir séu nú norðan við Grímsey en áður voru þeir suðaustan við eyjuna.