Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að skipa Önnu Tryggvadóttur, Árna Jón Árnason og Þorstein Hjartarson í þrjú embætti skrifstofustjóra í mennta- og barnamálaráðuneytinu. Þetta segir á vef Stjórnarráðsins.
Anna Tryggvadóttir er skipuð í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu ráðuneytisstjóra og innri þjónustu. Hún er með B.A.- og Mag. Jur.-próf í lögfræði frá Háskóla Íslands og hefur starfað hjá hinu opinbera allan sinn starfsferil, áður sem varaformaður og staðgengill forstöðumanns hjá Kærunefnd útlendingamála og fyrir það sem lögfræðingur hjá Umboðsmanni Alþingis.
Anna hefur setið í ýmsum stjórnsýslunefndum og sem stundakennari við lagadeildir HÍ og HR.
Innan Stjórnarráðinu hefur hún starfað frá árinu 2019, fyrst hjá félagsmálaráðuneytinu og nú síðar mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Hún starfaði sem yfirlögfræðingur og nú nýverið hefur hún verið í starfi starfgengils skrifstofustjóra.
Árni Jón Árnason er skipaður í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu greiningar og fjármála. Árni er M.Sc. í fjármálum frá University of Strathclyde, Glasgow með sérstaka áherslu á fjárfestingar, fjármál fyrirtækja og tölfræði. Hann er jafnframt Cand. Oecon. frá Háskóla Íslands.
Árni hefur starfað sjálfstætt við fjármálaráðgjöf frá 2016. Áður var hann meðeigandi hjá Deloitte frá 2006, auk þess sem hann starfaði við eftirlit með viðskiptabönkum og fjármálafyrirtækjum hjá Fjármálaeftirlitinu.
Um 10 ára skeið starfaði hann sem stundakennari hjá HÍ.
Þorsteinn Hjartarson er skipaður í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stefnumótunar og innleiðingar. Þorsteinn er með M.Ed.-gráðu í stjórnun menntastofnana frá Kennaraháskóla Íslands og íþróttakennarapróf frá Íþróttakennaraskóla Íslands.
Auk þess hefur Þorsteinn stundað nám við Idrætshøjskolen i Sønderborg og á félagsvísindasviði Háskóla Íslands.
Þorsteinn var skólastjóri Fellaskóla á árunum 2000 til 2007, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts frá árinu 2007 til ársins 2011, fræðslustjóri Árborgar milli 2011 og 2019 og hefur verið sviðsstjóri fjölskyldusviðs Árborgar frá árinu 2019.