Tveir sakborningar í saltdreifaramálinu svokallaða voru dæmdir í tólf ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Málið varðar annars vegar innflutning amfetamínfökva í miklu magni og hins vegar kannabisræktun á sveitabænum Hjallanesi við Hellu.
Tveir fengu tíu ára dóm, Guðlaugur Agnar Guðmundsson og Guðjón Sigurðsson, og mun hinn fyrrnefndi áfrýja, að sögn Sigurðar G. Guðjónssonar, verjanda hans.
„Miðað við sakfellingu míns skjólstæðings, þá munum við áfrýja,“ segir Sigurður. Málið snýst um að sök hafi verið yfir skynsamlegan vafa og gögn þurfi að styðja við slíkt.
Ekki liggur fyrir hvort aðrir sakborningar hyggist áfrýja niðurstöðu héraðsdóms.
Þeir Halldór Margeir Ólafsson og Ólafur Ágúst Hraundal hlutu tólf ára dóm.
Guðlaugur, Guðjón og Halldór voru fundnir sekir fyrir að hafa staðið að innflutningi á saltdreifara hingað til lands með Norrænu frá Hollandi. Í honum voru faldir 53 lítrar af amfetamínvökva. Var brotið framið í félagi með tveimur óþekktum erlendum aðilum. Í samvinnu við óþekktan íslenskan aðila fjarlægðu þeir amfetamínvökvann úr saltdreifaranum og framleiddu allt að 117,5 kg af amfetamíni í sölu og dreifingarskyni.
Guðjón, Halldór Margeir, Geir Elí Bjarnason og Ólafur Ágúst voru sakfelldir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið saman að kannabisræktun í útihúsi í Rangárþingi ytra.