Bílafloti Íslendinga er með þeim yngri í samanburði nokkurra landa í Evrópu. Hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, birti nýverið yfirlit yfir aldur bílaflota í álfunni og þegar tölur um íslenska flotann eru bornar saman má sjá að tíu lönd hafa á að skipa hærra hlutfalli nýrra bíla, fimm ára og yngri. Ísland er í ellefta sæti listans en 17 lönd eru þar fyrir neðan með lægra hlutfall nýrra bíla.
Um er að ræða tölur frá Samgöngustofu fyrir árið 2020 og birtust tölurnar fyrir Ísland í Árbók bílgreina sem Bílgreinasambandið gefur út. Þar má sjá að í bílaflota landsmanna það ár voru hvorki fleiri né færri en 269.548 bílar. Um 32% bílaflotans hér á landi voru 0-5 ára það ár. Um 18% bíla voru 6-10 ára, um 17% voru 11-15 ára, 15% voru 16-20 ára og 18% reyndust vera 20 ára og eldri.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.