„Verður að taka hart á svona málum“

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði. Ljósmynd/Hafnafjarðarbær

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir að sér hafi verið verulega brugðið þegar hún frétti af grófu einelti í garð 12 ára stúlku. Hún bendir á að málið sé í höndum Hraunvallaskóla og barnaverndaryfirvalda.

„Það verður að taka hart á svona málum og af mikilli ákveðni og það munum við gera eins og við getum. Við þurfum líka að hjálpast að sem samfélag við að uppræta ofbeldi, af hvaða tagi sem er, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða stafrænt,“ segir Rósa, sem tjáði sig um málið á Facebook í gærkvöldi.

Þarf að dreifa hlýju og samkennd

Hún segir mikilvægt að beina einnig sjónum sínum að gerendum í eineltismálum og eiga samtal við foreldra þeirra og forráðamenn.

„Þetta einelti sem á uppruna sinn á samfélagsmiðlum og í gegnum slík forrit er tiltölulega nýtt fyrirbæri sem virðist vera vaxandi. Það er eitthvað sem við sem samfélag, hvar sem við erum stödd á landinu, þurfum að hjálpast við að taka á,“ segir Rósa og bætir við: „Við þurfum kannski að leggja meiri áherslu á sem samfélag að dreifa hlýju og samkennd á meðal fólks og ala börnin okkar upp við að það getur haft alvarlegar afleiðingar að koma ekki vel fram við aðra.“

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekki upplýsingar um samnemendur 

Hafnarfjarðarbær hefur ekki fengið upplýsingar þess efnis að samnemendur hafi verið í hópi gerenda í árásinni alvarlegu á stúlkuna sem hefur verið myndbirt í fjölmiðlum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bænum. Þar er átt við árás á hana í Smáralind og utandyra. 

Stúlkan hef­ur mátt þola gróft einelti af höndum skólasystkina og fleiri barna og gerði hún af þeim sökum tilraun til að fremja sjálfs­víg. Móðir hennar sagði eineltið hafa verið slæmt í rúmt ár og að um 30 börn hafi tekið þátt í því. Skóla­yf­ir­völd hafi lítið hjálpað en að lög­regl­an skoði nú málið. Þá séu barna­vernd­ar­yf­ir­völd einnig með málið á sínu borði.

„Þessi átakanlega þróun virðist vera landlæg og upp kominn vandi sem íslenskt samfélag í heild þarf að bregðast við,“ segir í tilkynningunni bæjarins þar sem kemur fram að hann fordæmi allt ofbeldi og einelti. Öll mál séu tekin alvarlega og um leið og eitthvað bendi til óæskilegrar hegðunar eða vandamála grípi skólayfirvöld inn í og setji málið í forgang og ferli.

Mbl.is hafði samband við Barnavernd Hafnarfjarðar vegna málsins, sem vísaði á samskiptafulltrúa Hafnarfjarðarbæjar, þaðan sem tilkynningin barst. Þar kemur fram að bærinn tjáir sig ekki sérstaklega um einstaka mál heldur almennt um ferli og viðbrögð sveitarfélagsins þegar alvarleg mál koma upp.

„Í samráði og samtali við foreldra/forsjáraðila eru kallaðir til ráðgjafar og sérfræðingar frá ólíkum sviðum háð eðli hvers máls; skólafélagsráðgjafar, námsráðgjafar, sálfræðingar, þroskaþjálfar, barnalæknar og þau úrræði og þjónusta virkjuð sem við á í hverju tilfelli. Þegar við á er barnavernd strax fengin að borðinu,“ segir í tilkynningunni um almenna ferlið.

Hraunvallaskóli í Hafnarfirði.
Hraunvallaskóli í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Fagfólk sem vinnur þvert á stofnanir

Einnig segir þar að lögregla og sveitarfélag vinni náið saman í öllum málum og reglulegir fundnir séu haldnir.

„Umræða og vaxandi áhyggjur vegna ofbeldis- og áhættuhegðunar heilt yfir í íslensku samfélagi skilaði sér í eflingu samstarfshóps innan sveitarfélagsins í upphafi árs 2022 sem í sitja fulltrúi lögreglu, fulltrúi barnaverndar, fulltrúi Brúarinnar, sálfræðingur og fagstjóri frístundastarfs og forvarna. Fagfólk sem vinnur þvert á stofnanir að málefnum barna og ungmenna og kallar til aðra fagaðila eftir því sem við á. Þar er þróun mála rædd og þær breytingar sem virðast vera að eiga sér stað í samfélaginu gagngert til að fyrirbyggja með fræðslu og forvörnum.“

Fram kemur að samfélagið og starfsfólk bæjarins sem vinni með börnum og ungmennum sé á tánum og meðvitað um mikilvægi tilkynninga og snemmtækrar íhlutunar. Tilkynning til barnaverndar sé ekki kæra heldur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn og/eða fjölskyldu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert