Hjónin Birgir Þ. Jóhannsson, arkitekt hjá Alternance, og sagnfræðingurinn Astrid Lelarge keyptu húsið á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs árið 2012, en húsið er byggt 1881 og því yfir 140 ára gamalt. Þar búa þau ásamt sonum sínum tveimur og vilja hvergi annars staðar vera. Hjónin settust niður með blaðamanni einn morgun í vikunni til að ræða um heimilið sitt fallega en þau hafa staðið í ströngu við að koma húsinu í upprunalegt form.
Í húsinu hafa líklega búið hundruð manna í gegnum tíðina og synd að veggirnir geti ekki talað. Sögur af lífi fólks í húsinu í heila öld og fjörutíu árum betur eru margar hverjar gleymdar, þó hefur Birgir eitthvað getað grafið upp með grúski.
„Hér hefur búið alls konar fólk, fjölskyldur og eins var hér sjúkraheimili fyrir börn um aldamótin 1900. Í upphafi bjuggu tuttugu og fjórir í húsinu á tveimur hæðum og í kjallara hefur verið eldhús og geymsla fyrir sjógalla. Fjaran var hér rétt fyrir neðan og þar var róið út. Hér fyrir utan voru stakkstæði þar sem fiskur var þurrkaður,“ segir Birgir og bendir út um gluggann.
Á miðvikudag hlutu hjónin fegrunarviðurkenningu Reykjavíkurborgar fyrir vandaðar endurbætur.
„Það eru tvö hús á ári sem fá viðurkenningu fyrir góða endurgerð. Það er jákvætt að fá viðurkenningu fyrir það sem maður hefur gert. Fólkið í götunni er almennt mjög ánægt með húsið,“ segir Birgir og Astrid bætir við að gaman sé fyrir Birgi að fá viðurkenninguna því hann hafi lagt mikla vinnu í húsið.
„Ég er ánægð fyrir hans hönd og fyrir hönd hússins. Þetta er hans fag en auðvitað er húsið mitt líka og ég elska það. Hér er góð orka og mjög kósí,“ segir hún og segja þau bæði góðan anda í húsinu.
Ítarlegt viðtal er við hjónin Birgi og Astrid í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.