„Af mér er þannig séð allt gott að frétta, sólarhringurinn er dálítið langur hjá mér en allt er hægt,“ segir Stefán Máni Sigþórsson, glæpasagnahöfundur frá Ólafsvík, inntur eftir sinni nýjustu afurð, sem kom út í dag. Bókin sú heitir Hungur.
„Í ár gef ég út í október, það er auðvitað aðeins fyrir jólabókaflóðið en það hefur reynst vel. Fólk er að lesa núna í skammdeginu, bækurnar spyrjast út og það er bara minna stress. Fólk er alveg tilbúið að kaupa bækur í október,“ heldur Ólafsvíkingurinn áfram sem varð ódauðlegur á Íslandi með rammíslenskri glæpasögu sinni Svartur á leik upp úr aldamótunum síðustu.
En hvað er að frétta af Hungri, hvernig gekk að skrifa enn eina glæpasögu úr íslenskum veruleika?
„Mjög vel. Hörður er að rannsaka þarna mjög alvarlega glæpi, mjög hrottaleg morð og þessi bók er mjög sjokkerandi. Herði er falið að setja saman rannsóknarteymi og búa til „prófíl“ að hætti FBI um morðingja sem gengur laus,“ segir Stefán Máni sem nú þegar hefur sent frá sér tug bóka um sérlundaða rauðhærða lögreglumanninn frá Súðavík, Hörð Grímsson.
„Þessi bók kallaði á mikla rannsóknarvinnu þannig að þetta var smá heimavinna hjá mér en mér þykir bara svo gaman að skrifa um Hörð. Mér þykir svo vænt um karlinn enda náum við vel saman. Við eigum margt sameiginlegt,“ segir Stefán Máni sem áður hefur gefið í skyn í viðtölum við mbl.is að Hörður Grímsson sé einhvers konar hliðarsjálf skapara hans.
„Auðvitað lendir maður oft á einhverjum þröskuldum, skáldsögur skrifa sig ekki sjálfar,“ segir Stefán Máni og hlær við. Verða ritstíflur þá enn fremur ekki á vegi hans? Eru sumir dagar ekki erfiðari en aðrir?
„Jú, auðvitað kemur það oft fyrir. En það er bara eins og að stunda ræktina eða æfa hlaup, úthaldið fer upp og niður. Eins með skrifin. Inn á milli koma dagar þegar andinn yfirgefur mig og ég fer ekkert á taugum yfir því, þetta er bara eitthvað sem allir rithöfundar lenda í,“ svarar Stefán.
Á sínum tíma, í viðtali við mbl.is ekki alls fyrir löngu, játaði Stefán að hann skrifaði bækur sínar gjarnan aftur á bak, fyndi fyrst lokasenu og skrifaði sig svo til baka. Gildir það enn?
„Já, að vissu leyti er það þannig en kveikjan að Hungri spratt þó af bandarískum afbrotamálum í þetta sinn. Ég er alltaf að hugsa um Hörð, hvað er hann að gera eða hvað er hann að gera af sér?“ segir Stefán Máni og hlær. „Hann er eins og snjóbolti sem stækkar eftir því sem hann rúllar lengur. Oft er ég samt búinn að gleyma hvernig hugmyndirnar kvikna, mér nægir að finna út hvernig Hörður nær vonda kallinum og hvað hann gerir við hann,“ heldur þessi þrautgóði glæpasagnahöfundur áfram.
Hvernig hefur sambúð þeirra Harðar Grímssonar þá gengið gegnum tug bóka, er óhætt að spyrja um það?
„Já já,“ svarar Stefán Máni og glottir við tönn, slíkt heyrist jafnvel þótt viðtalið sé símtal, „hún hefur gengið mjög vel, mér finnst alltaf gaman að vera með Hörð inni í hausnum á mér. Hann þroskast auðvitað og breytist og þróast og í þessari bók sýnir hann á sér nýja hlið sem mér finnst spennandi og ég hlakka til að fá viðbrögð frá lesendum við því,“ segir Stefán Máni.
Hvernig heyrir hann helst frá lesendum nú þegar heimsfaraldri er lokið og nánast eðlileg samskipti farin að tíðkast í heiminum?
„Það er mest í gegnum samfélagsmiðlana og svo líka rekst maður bara á fólk úti á götu, „konan mín er aðdáandi þinn,“ segir einhver og auðvitað er það mjög gaman, ég heyri oft svona skemmtilegar sögur frá þriðja aðila og það getur bara verið mjög skemmtilegt,“ játar Ólafsvíkingurinn.
Var þetta öðruvísi í gamla daga?
„Já, þetta var það. Um þetta leyti sem ég var að skrifa bækur á borð við Hótel Kalifornía og Svartur á leik var ég miklu meira að suða í fjölmiðlum að komast í viðtöl. En þá talaði maður líka miklu meira við lesendur og var í upplestrum. Mér fannst vera meira líf einhvern veginn þá,“ svarar höfundurinn.
Stefán Máni getur þó ekki beint gert upp við sig hvort hann sakni þessara gömlu tíma. „Það er alltaf bara já og nei, ég er ekki þessi nostalgíutýpa sem segir að allt hafi verið betra í gamla daga. Nú eru hlutirnir öðruvísi, sá Stefán Máni sem skrifaði Svartur á leik er ekki til í dag, ég gæti ekki skrifað þá bók í dag, gamli ég og þú erum ekki til lengur, þetta er allt einhver tilvistarspeki,“ segir Stefán Máni og stekkur ekki bros, stundum heyrist það líka í símtölum, hann leggur hlutina fram grafalvarlegur enda sannur atvinnumaður hins ritaða. Verkamaður orðsins jafnvel.
Hvað með upplestra og annað, er von á slíkri markaðssetningu undir jól?
„Ég veit það ekki, Covid og allt er nýbúið, það verður bara að koma í ljós,“ svarar höfundurinn og ljóst er að hugur fylgir máli.
Að lokum, hvað er fram undan?
„Ég held alltaf áfram. Ég er nýbúinn að gera kvikmyndasamning um Húsið og er pínulítið að fylgjast með því og taka þátt í ferlinu. Það er mjög spennandi. Svo voru framleiðendur Svartur á leik að tilkynna að þeir vildu gera tvær framhaldsmyndir þannig að ég er bara að svara símtölum og tölvupóstum og grúska í þessu öllu saman, það er svo mikið að gerast að mér á ekkert eftir að leiðast næstu árin,“ segir Stefán Máni Sigþórsson, glæpasagnahöfundur frá Ólafsvík, sem í dag sendir frá sér bókina Hungur og er hvergi nærri hættur.