Mikill uppgangur er í Bolungarvík en reisa á 50 nýjar íbúðir samkvæmt nýju deilskipulagi. Finnbogi Bjarnason, skipulags- og byggingarfulltrúi Bolungarvíkur segir nauðsynlega vanta íbúðir til þess að taka á móti starfsfólki og ungu fólki sem á rætur að rekja til Bolungarvíkur og vill flytja í sveitarfélagið.
„Það er mikil uppbygging í sveitafélaginu og gríðarleg vöntun á húsnæði. Við ákváðum að deiliskipuleggja nýtt íbúðarhverfi með einbýlishúsum, rað- og parhúsum til þess að mæta þörfinni sem eru 50 nýjar íbúðir eða um það bil 200 nýir íbúar. Í sveitarfélaginu eru fyrir 1000 manns og því um það bil 20% aukning," segir Finnbogi.
Deiliskipulagið er tvískipt, íbúðarhluti og frístundahluti en þar er gert ráð fyrir 10 nýjum frístundahúsum sem eru hugsuð til þess að leigja fyrir ferðamenn.
„Það er mikið vandamál að ferðamenn fá enga gistingu en það er gríðarleg aukning ferðamanna meðal annars í tengslum við nýjan áfangastað á Bolafjalli,“ segir Finnbogi.
Mikil uppbygging er í Bolungarvík en 40 ný störf verða til á næsta ári og ekki er til ein ný íbúð fyrir starfsfólkið og fjölskyldur þeirra. Finnbogi kveðst ánægður með uppbygginguna og segir það orðið löngu tímabært að byggja nýtt húsnæði í Bolungarvík.
„Ungt og áhugasamt fólk er að flytja í sveitafélagið aftur og vill byggja sér nýtt húsnæði. Þetta er ekkert öðruvísi hérna í Bolungarvík en á öðrum stöðum úti á landi, flest hús hérna eru 50 ára og eldri fyrir utan eitt og eitt. Það er mikil vöntun og löngu tímabært að það sé farið að byggja á landsbyggðinni."