Landsréttur hefur dæmt karlmann í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa beitt konur alvarlegu ofbeldi, greitt fyrir vændi og brotið gegn valdstjórninni. Landsréttur vísaði hins vegar frá héraðsdómi þeim hluta ákæru sem varðaði tilraun til nauðgunar vegna óskýrleika ákæru.
Manninum var gert að greiða konunum 1,2 milljón krónur hvor. Ein konan hafði krafist 2,5 milljónir í bætur en hin 4 milljónir.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt manninn sekan um tilraun til nauðgunar. Landsréttur vísaði hins vegar frá héraðsdómi þeim hluta ákærunnar vegna óskýrleika ákæru þar sem að í ákærutextanum var ekki lýst háttsemi mannsins um ætlaða tilraun hans, hvorki þeirri atvikalýsingu sem konan hafði greint frá á neyðarmóttöku, hjá lögreglu né fyrir dómi.
Aftur á móti var lýst því ofbeldi sem manninum er gefið að sök að hafa beitt konuna. Þar sem talið var að óskýrleiki ákæru væri til þess fallinn að leiða til þess að vörnum mannsins yrði ábótavant var þessum hluta ákærunnar vísað frá héraðsdómi. Landsréttur staðfesti hins vegar niðurstöðu héraðsdóms hvað varðaði ofbeldi mannsin gagnvart konunni og þeim hótunum sem hann viðhafði.
Þá var maðurinn dæmdur fyrir tvö ofbeldisbrot gagnvart fyrrverandi unnustu sinni. Aftur á móti var ekki fallist á að um brot í nánu sambandi væri að ræða þar sem ekki var talið að slík tengsl væru á milli mannsins og konunnar. Sambandið hafði verið skammvinnt og ítrekuð rof höfðu verið á því.