Tekur upp hanskann fyrir bróður sinn

Jón Hjaltason, sem skipaði þriðja sæti á lista Flokks fólksins.
Jón Hjaltason, sem skipaði þriðja sæti á lista Flokks fólksins. Ljósmynd/Aðsend

Þorsteinn Hjaltason segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að ásakanir á hendur bróður sínum Jóni Hjaltasyni, frambjóðanda Flokks fólksins á Akureyri, hafi verið óljósar og að ekkert hafi verið fundið að framkomu hans og oddvita flokksins.

Þá sakar hann Ingu Sæland formann flokksins og Guðmund Inga Kristinsson varaformanninn um siðblindu og segir hann að framferði þeirra beri að fordæma harðlega. Þá megi fleiri skammast sín.

Ekki í vandræðum með að skilgreina karlaforystuna

Málið sem vísað er til hér að ofan komst fyrst í sviðsljósið þegar að þrjár konur í Flokki fólksins sökuðu ónefnda karlaforystu um einelti, andlegt ofbeldi og kynferðislegt áreiti. 

Þorsteinn segir fjölmiðla ekki verið í neinum vandræðum með að skilgreina hver „karlaforystan“ væri enda hlyti það að vera karlar í efstu sætum listans, sem voru þeir Brynjólfur Ingvarsson oddviti og Jón Hjaltason sem skipaði þriðja sætið. Þeir hafa báðir sagt skilið við flokkinn í kjölfarið.

„Í sex daga var fjallað um málið og þessir tveir engdust við að reyna að verja sig gegn alvarlegum ásökunum en svo óljósum að erfitt var að henda reiður á málinu og bera hönd fyrir höfuð sér,“ skrifar Þorsteinn.

Vopnið sé heilagt

Hann segir að lengi hafi margir þurft að þola mikinn órétt í hljóði því ekki var hlustað ef reynt var að kvarta yfir kynferðislegu áreiti en #metoo byltingin hafi síðan leitt til þess að þolendur fengu vopn í hendurnar.

„Vopnið er heilagt og ber að koma fram við það af virðingu. Það er grafalvarlegt mál þegar það er vanhelgað eða slævt, og spellvirki unnin á því, með að misnota það eins og gert var í þessu máli, þegar það var notað af valdagræðgi og yfirgangi við pólitískar hreinsanir í Flokki fólksins. Þetta framferði ber að fordæma harðlega.“

Hægt er að lesa pistilinn í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert