Þurfum að tryggja að allir geti sótt nám

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum fengið fregnir af því að eineltismálum sé að fjölga eftir heimsfaraldur en á því kunna að vera ýmsar skýringar eins og verri líðan barna, samfélagsmiðlar og tæknibreytingar,“ segir Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra.

Mál 12 ára gamallar stúlku sem steig fram og lýsti hrotta­legu einelti sem hún hef­ur orðið fyr­ir síðasta rúma árið, meðal ann­ars í gegn­um sam­fé­lags­miðla hefur vakið mikla athygli. 

Erfitt getur reynst að vísa krökkum sem leggja aðra í einelti úr skólum og endar það oftar en ekki á þann veg að þolandinn hrökklast úr skólunum.

„Þar sem skóla- og fræðsluskylda er í okkar samfélagi ber okkur skylda að ná að leiða fram sættir í svona málum þannig báðir aðilar geti sótt nám. Við verðum að muna að oft eru mikil vandræði hjá þeim sem eru gerendur í þessum málum og er eitthvað sem verður alltaf að taka til skoðunar í þessum efnum,“ segir Katrín innt eftir svörum við því hvort það geti talist eðlilegt. 

Mál hinnar 12 ára Ísabellu hefur vakið mikla athygli.
Mál hinnar 12 ára Ísabellu hefur vakið mikla athygli. mbl.is/Árni Sæberg

Falla gróf skilaboð á milli barna á samfélagsmiðlum undir hatursorðræðu?

Vísbendingar um vaxandi hatursorðræðu í íslensku samfélagi urðu til þess að skipaður var sérstakur starfshópur gegn hatursorðræðu. Aðspurð um hvort gróf skilaboð á milli barna á samfélagsmiðlum falli þar undir sagði Katrín erfitt að meta það. 

„Þar sem um börn ræðir eru önnur sjónarmið sem gilda. Við erum á fullu í vinnu í hóp gegn hatursorðræðu en hann var sérstaklega settur upp til þess að fara yfir hatursorðræðu gagnvart einstökum hópum eins og hinsegin fólki, fólki af öðrum kynþáttum og fleiri. Þar hefur komið upp hvort þetta sé eitthvað sem eigi að taka þar til umræðu en það er spurning hvort það eigi heima þar eða í barnamálaráðuneytinu og skólunum,“ segir Katrín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert