Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og verndari Slysavarnafélagsins Landsbjargar, setti í dag ráðstefnuna Björgun sem fram fer í Hörpu.
Víðir Reynisson flutti síðan opnunarfyrirlestur um umhverfi almannavarna, stöðuna í dag og hvert stefnir í áskorunum til framtíðar.
Um þúsund sækja ráðstefnuna og koma víðsvegar að svo sem Nýja Sjálandi og Bandaríkjunum, að því er fram kemur í tilkynningu Landsbjargar. Björgun22 er á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar og taka þátt yfir 50 innlendir sem erlendir fyrirlesarar með þekkingu á leit og björgun.
Ráðstefnan hefur verið haldin á tveggja ára fresti frá árinu 1990 og er því haldin í 14. skiptið í ár. Aflýsa þurfti ráðstefnunni sem var á dagskrá árið 2020.
Fram kemur í tilkynningunni að ráðstefnan er haldin í fjórum sölum, ýmist á íslensku og ensku, og samhliða fyrirlestrunum er viðamikil vörusýning með um 50 fyrirtækjum þar sem ráðstefnugestir geta kynnt sér úrval sem hentar viðbragðsaðilum.