„Tilraunir til að leyna upplýsingum“

Starfsstöðvar Innheimtustofnunar m.a. á Ísafirði, en fyrra á árinu fóru …
Starfsstöðvar Innheimtustofnunar m.a. á Ísafirði, en fyrra á árinu fóru starfsmenn héraðssaksóknara vestur og handtóku þrjá og gerðu húsleitir vegna málsins. mbl.is/Sigurður Bogi

Fyrrverandi stjórnendur Innheimtustofnunar sveitarfélaga gerðu tilraunir til að leyna upplýsingum og gögnum og afvegaleiða úttekt á starfsemi stofnunarinnar. Þetta segir í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á stofnuninni vegna tilfærslu verkefna til ríkisins.

Þegar Ríkisendurskoðun hóf úttekt sína í september í fyrra sendi embættið Innheimtustofnun ítarlegar spurningar. Í skýrslunni sem birt var í dag segir að „Svör stofnunarinnar og skýringar við mörgum þessara spurninga, ásamt þeim gögnum sem frá henni bárust, voru að mati Ríkisendurskoðunar verulega ábótavant.“

Sum svör beinlínis röng og villandi

Gerði Ríkisendurskoðun í kjölfarið verkefnastjórn samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga grein fyrir málinu og að sagði mat sitt vera að í „mörgum tilfellum væri um að ræða tilraunir til að leyna upplýsingum og gögnum og afvegaleiða úttekt á starfsemi stofnunarinnar.“

Segir jafnframt að Ríkisendurskoðun hafi talið sum svör beinlínis röng og villandi. Vakti Ríkisendurskoðun athygli verkefnastjórnarinnar á því að stjórnun og innra skipulag stofnunarinnar væri langt frá viðmiðum ríkisins um opinber fjármál og faglega stjórnsýslu. Þá hafi úttektin varpað ljósi á óeðlilega háttsemi innan stofnunarinnar sem væri á ábyrgð stjórnenda hennar.

Segir jafnframt að mat Ríkisendurskoðunar hafi verið að nálgast þyrfti hugsanlega tilfærslu verkefna Innheimtustofnunar til ríkisins með öðrum hætti en verið hefði og án aðkomu þáverandi stjórnar og stjórnenda.

Gerðu stjórn grein fyrir háttsemi sinni

Á stjórnarfundi 10. desember gerðu þáverandi stjórnendur stjórninni grein fyrir háttsemi sinni og ákvað stjórnin að háttsemin fæli í sér trúnaðarbrest og skipaði stjórnendunum að hverfa frá henni, en fram kemur að frumkvæði stjórnenda að tilkynna um háttsemi sína megi rekja til eftirgrennslan fjölmiðla.

Í framhaldinu sagði stjórn Innheimtustofnunar af sér og var ný stjórn skipuð. Segir Ríkisendurskoðun að hún hafi tekið þessi mál föstum tökum og vikið stjórnendum tímabundið frá störfum. Í úttektinni segir jafnframt að Ríkisendurskoðun fylgist nú með og veiti núverandi stjórn stuðning eftir atvikum til að upplýsa um háttsemi fyrrum stjórnenda, en ný stjórn kærði málið til lögreglu og er málið nú til meðferðar hjá héraðssaksóknara.

Eins og greint var frá í apríl fóru starfsmenn héraðssaksóknara í aðgerðir á Vestfjörðum vegna rannsóknarinnar og voru þá þrír handteknir og skýrslur teknar, auk þess sem húsleitir fóru fram. Greindi mbl.is frá því að Bragi Axelsson, fyrrverandi forstöðumaður útibús stofnunarinnar á Ísafirði og Jón Ingvar Pálsson, forstjóri stofnunarinnar, auk annars starfsmanns, hafi verið þeir sem handteknir voru, en greint hafði verið frá því að rannsóknin snerist meðal annars um hvort innheimtuverkefnum hafi verið ráðstafað til fyrirtækis í eigu Braga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert