Vill ráða fólk yfir sjötugu

Þessi mynd er af leikskólanum Ægisborg og tengist efni fréttarinnar …
Þessi mynd er af leikskólanum Ægisborg og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti fyrir utan að þar er ekki nokkra manneskju að sjá. Mannekla á leikskólum er alvarlegt vandamál að sögn borgarráðsfulltrúa. mbl.is/Kristinn Magnússon

Laus pláss og staða mönnunar á leikskólum Reykjavíkurborgar varð umtalsefni á fundi borgarráðs á 5.680. fundi þess í gær. Þar lögðu fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar fram eftirfarandi bókun:

„Staðan á mönnun á leikskóla í október er að það vantar 83 stöðugildi á leikskólana. Fyrr í haust vantaði 122 stöðugildi sem þýðir að búið er að ganga frá ráðningum á um 40 manns. Staðan á vinnumarkaði er með þeim hætti að erfiðara reynist að ráða fólk inn á leikskólana. Um leið er mikilvægt að ljúka því að ráða í öll stöðugildi til þess að hægt sé að bjóða fleiri börnum pláss á leikskólum borgarinnar.“

Lýstu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks því yfir í sinni bókun að mönnunarvandi leikskólanna væri áhyggjuefni, erfitt væri að leysa leikskólavandann án þess að leysa mönnunarvandann.

Mikill mannauður

Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands sagði í sinni bókun að mikilvægt væri að bæta kjör og starfsaðstæður í leikskólunum. Þrettánda október hefðu laus pláss í leikskólum verið 222, þar af 187 vegna mönnunarvanda.

Þá lét áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bóka að staða mönnunar í leikskólum væri slæm og starfsmannavelta mikil. „Fólk staldrar stutt við. Af hverju skyldi það vera? Þetta þarf að skoða. Alls eru laus 449 pláss í 69 leikskólum, mest vegna mönnunarvanda og vegna þess að ekki er hægt að nota húsnæðið.

Mönnunarvandi hefur fest rætur í Reykjavík og breytir þá engu hvernig árferði er, hvort það er næg atvinna eða atvinnuleysi. Leikskólar virðast ekki laða að starfsfólk. Flokkur fólksins var með tillögu sem gæti hjálpað. Sú tillaga laut að því að ráða eldra fólk sem það vill og getur, fólk yfir sjötugu til að vinna í leikskólum. Í þeim aldurshópi er mikill mannauður,“ segir þar.

Fyrir fundinn hafði Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, lagt fram minnisblað og gert þar grein fyrir stöðu í ráðningum á leikskóla og fjölda lausra plássa um þessar mundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert