„Við erum búin að fá nóg af veðrinu á Íslandi; ég meina það fauk bátur upp í fjöru í Keflavík í fárviðrinu í september,“ segir Magnús Magnússon sem flutti á dögunum frá Reykjavík til bæjarins Hólmastrandar í Noregi ásamt eiguinkonu sinni, Söndru Vestmann. „Það er líka önnur ástæða.“
– Nú?
„Gengi KR.“
– Ha, KR?
„Já, þeir eru alveg búnir að gera upp á bak.“
Hann glottir.
Magnús er sumsé grjótharður KR-ingur og góðu vanur gegnum tíðina. Vinnufélagar Söndru misskildu þetta að vísu eitthvað. „Já, auðvitað. Þið eruð búin að fá nóg af gengi íslensku krónunnar,“ gall í þeim en Knattspyrnufélag Reykjavíkur og krónan eru sem kunnugt er skammstöfuð með sama hætti.
Svo skemmtilega vill til að knattspyrnufélagið á Hólmaströnd klæðist nákvæmlega eins búningum og KR, röndóttum svarthvítum.
Magnús rak Retró Café vestur á Granda og hjónin hafa að auki frá 2005 flutt inn kaffi og kaffivélar. „Við erum mjög mikið kaffifólk,“ segir Sandra.
– Er góð kaffimenning í Noregi?
„Hún var léleg en er að skána,“ svarar Magnús.
Sandra vann sem fasteignasali og mun gera áfram. „Við erum að flytja inn hús frá Titanica og ég get hæglega sinnt starfi mínu áfram frá Noregi,“ segir Sandra sem er 59 ára að aldri.
Magnús er níu árum eldri og ætlar bara að fara að leika sér ytra, eins og hann orðar það. „Hann er kominn …“ byrjar Sandra og Magnús botnar setninguna: „… á grafarbakkann.“
Þau hlæja en sennilega hefur hún ætlað að segja „á eftirlaunaaldur“.
Nánar er fjallað um búferlaflutninga Söndru og Magnúsar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í máli og myndum en Árni Sæberg ljósmyndari blaðsins fylgdi þeim eftir út.