Dómur þyngdur í umfangsmiklu fíkniefnamáli

Konurnar voru dæmdar í tveggja ára fangelsi, en maðurinn hlaut …
Konurnar voru dæmdar í tveggja ára fangelsi, en maðurinn hlaut þriggja ára dóm. mbl.is/Hanna

Landsréttur þyngdi í gær dóm yfir tveimur konum og einum karlmanni fyrir að hafa staðið að innflutningi mikils magns fíkniefna.

Voru þær Karina Elzbieta Koziej og Grazyna Irena Krawczak dæmdar í tveggja ára fangelsi, en Michael Myrkva Karatzis hlaut þriggja ára dóm þar sem hann var einnig sakfelldur fyrir peningaþvætti.

Konurnar fluttu fíkniefnin til landsins sem farþegar með flugi frá borginni Wroclaw í Póllandi í fjórum pakkningum, sem þær földu í brjóstahöldurum sínum. Afhentu þær síðan fíkniefnin til Karatzis sem geymdi þau í bílskúr við heimili sitt.

OxyContin hættulegasta fíkniefnið

Um var að ræða samtals 408,41 gramm af kristölluðu metamfetamíni, 2.996 töflur af Alprazolam Krka, 1.440 töflur af Rivotril, 854 töflur af OxyContin og 995 töflur af öðrum tilgreindum ávana- og fíknilyfjum.

Fíknigeðlæknir, sem gaf skýrslu fyrir Landsrétti, sagði ópíóðalyf bæði líkamlega og andlega ávanabindandi, hættuleg ein og sér og stórhættuleg með öðrum slævandi lyfjum. OxyContin sé ásamt heróíni og fentanyl hættulegasta fíkniefnið.

Í Héraðsdómi Reykjaness voru konurnar dæmdar í eins og hálfs árs fangelsi og hlaut maðurinn tvö og hálft ár. Þyngdi Landsréttur dómana því um hálft ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert